Þrátt fyrir að App­le hafi aldrei stað­fest það hefur það verið opin­bert leyndar­mál í nokkur ár að fyrir­tækið vinni að þróun sjálf­keyrandi bíls. Nú hefur Doug Field, sem fór fyrir verk­efninu, látið af störfum og er farinn til starfa fyrir banda­ríska bílarisann Ford, að eigin sögn til að „reyna að breyta ein­hverju.“ Field var áður hátt­settur yfir­maður hjá Tesla sem einnig hefur unnið að þróun sjálf­keyrandi bíla.

Hann er einungis sá nýjasti af mörgum sem leitt hafa Titan-verk­efnið svo­kallaða fyrir App­le sem farinn er annað, sá fjórði á sjö árum. Að sögn Financial Times komu starfs­lok Field illa við marga starfs­menn verk­efnisins sem óttuðust að því yrði hætt.

App­le-bíllinn á götum Cupertino.
Mynd/Jean Bai

Á neyðar­fundi sem blásið var til hjá App­le eftir af­sögn field var starfs­fólki lofað að engar upp­sagnir væru í vændum en endur­skipu­leggja ætti verk­efnið. Sam­kvæmt Bloom­berg mun Kevin Lynch, sem leitt hefur þróun App­le Watch og önnur heilsu­tengd verk­efni taka við Titan.

Lauri­e Yoler sem unnið hefur fyrir Tesla, segir of snemmt að lýsa Titan-verk­efni dautt. „Ég veit um marga sem hafa farið þangað bara á síðustu mánuðum. Ekki mikið af fólki, um tylft, en allt ný­­lega. Þetta er allt hátt­­sett fólk,“ segir hún við Financial Times.

Staða verk­efnisins virðist þó erfið. Ekki er út­lit fyrir að bíllinn komi á markað í bráð. Eins og áður sagði hefur App­le aldrei stað­fest þróun sjálf­keyrandi bíls en hefur lagt inn gögn til hins opin­bera um fjölda kíló­metra sem prufu­bílar hafa ekið í Kali­forníu. Þeir eru nú orðnir um 30 þúsund en hefur fækkað ár frá ári.

Prufu­bílarnir eru oftast nær af Lexus-gerð, út­búnir fjölda skynjara á þakinu. Ljós­myndarinn Jean Bai hefur setið fyrir utan starfs­stöðvar App­le í Cupertino og smellt af fjölda mynda af bílnum.