Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel stendur á merkilegum tímamótum en framundan er hlutafjárboð og skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam. Í útboðinu verða boðnir til sölu 100 milljónir nýrra hluta, eða um 15% af útgefnu hlutafé. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum vaxið í alþjóðaleiðtoga með 6000 starfsmenn í 30 löndum víða um heim.

Í gær var opið hús fyrir almenning sem bauðst að ganga um höfuðstöðvarnar og kynna sér framleiðslu og nýsköpunarstarfsemi fyrirtækisins. „Við erum að undirbúa opið útboð á hlutabréfum á Íslandi og Hollandi til almennings og á sama tíma alþjóðlegt útboð til upplýstra fagfjárfesta, þetta er mikil törn en skemmtileg,“ segir Árni Oddur.

Heildartekjur Marel hafa vaxið um 22% á ári frá skráningu félagsins í Kauphöllina á Íslandi árið 1992. Stærð félagsins er 36% af markaðsverðmæti allra skráðra félaga í Kauphöllinni.

Hvert er næringarinnihaldið og hvað borga ég fyrir vöruna, þetta er skammt á veg komið ef maður litast um í stórmörkuðum í dag en þetta er framtíðin.“
Ernir Eyjólfsson

100 milljón virkir neytendur á ári

Þessi mikli vöxtur fyrirtækisins? Getur þetta haldið svona áfram?

„Amma spurði mig að hinu sama um daginn; Árni minn getur þetta bara haldið endalaust áfram? Það er eðlilegt að velta því fyrir sér enda er vöxturinn mikill. Marel byrjaði sem sproti í Háskóla Íslands í samvinnu við íslenska fiskvinnslu með það meginmarkmiði að auka nýtingu og hagkvæmni í vinnslu og nú 40 árum síðar erum við leiðandi fyrirtæki á alþjóðavísu í heildarlausnum og hugbúnaði til fisk-,kjöt og kjúklingavinnslu með yfir 6000 starfsmenn að þjónusta viðskiptavini í meira en 140 löndum. En já, vöxturinn mun halda áfram þar sem þörfin á nýjum lausnum á matvælamarkaði er mikil til að auka gæði, öryggi og rekjanleika matvæla auk þess að auka hagkvæmni og nýtingarhlutfall. Þegar afi minn fæddist árið 1892 þá var um einn milljarður manna sem bjó á jörðinni, nú þremur kynslóðum síðar erum við 7,5 milljarðar og fólk er að flytja úr sveit í borg. Nú býr meirihluti jarðarbúa í þéttbýli og við erum hætt að vera sjálfsþurftarbændur og erum orðin virkari neytendur. Við Íslendingar notum um 15-20% ráðstöfunartekna okkar í matvæli sem er svipað hlutfall og víða hjá velmegunarþjóðum.

Heimurinn er að breytast mjög hratt og virkum neytendum fjölgar um 100 milljónir á ári hverju og það fyrsta sem við gerum þegar við breytumst í virka neytendur er að tryggja fjölskyldum okkar húsaskjól, örugg matvæli og menntun barna okkar ,“ segir Árni Oddur og segir að breytingarnar krefjast þess að matvælaiðnaðurinn styðjist í stórauknum mæli við nýsköpun til þess að bæta nýtingu matvæla og nýta takmarkaðar auðlindir jarðar betur.

Þetta er krafa neytenda, þeir vilja vita nákvæmlega hvaðan varan er, hvort hún sé holl, örugg og hversu langt hún hefur ferðast.

„Við fjárfestum 6% á ári í nýsköpun, það þarf að fjárfesta meira í innviðunum, það er alveg klárt og það þarf að samþætta skrefin í virðiskeðjunni mun meira. Með gagnasöfnun og dreifingu á gögnum frá til að mynda, veiðum og vinnslu eða frá bónda og alla leiðina til neytandans. Þetta er krafa neytenda, þeir vilja vita nákvæmlega hvaðan varan er, hvort hún sé holl, örugg og hversu langt hún hefur ferðast. Hvert er næringarinnihaldið og hvað borga ég fyrir vöruna, þetta er skammt á veg komið ef maður litast um í stórmörkuðum í dag en þetta er framtíðin.“

Árni og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri Marel á opnum degi í höfuðstöðvum félagsins í gær.
Ernir Eyjólfsson

Borðum við stundum of stóra steik?

„Til þess að geta vaxið stöðugt eins og við höfum gert frá árinu 1992 þá þurfum við að ýta undir nýsköpun og hugsa mjög vel um viðskiptavini okkar og starfsfólk Marel,“ segir Árni Oddur sem segist oft fá spurningar um það hvort breytingar á neyslu fólks, þar sem fólk sneiðir hjá dýraafurðum, sé áskorun fyrir fyrirtækið.

Við erum öll að hugsa eins, borðum við stundum of stóra steik? Já vissulega en áfram þurfum við að gæta að jafnvægi í mataræði.

„Við fáum mjög mikið af spurningum um það hvort neysla á rauðu kjöti, fiski og kjúklingi fari ekki minnkandi og hvort það feli ekki í sér áhættu. En þá verðum við að hafa í huga að við höfum það gott hér á meðan önnur þjóðfélög eru að rísa og dreyma um að hafa hærra hlutfall af prótíni í mataræði sínu á kostnað korns og sykurs. Við erum öll að hugsa eins, borðum við stundum of stóra steik? Já vissulega en áfram þurfum við að gæta að jafnvægi í mataræði. Ég sjálfur og margir neytendur einbeita sér að því alla daga að auka grænmeti, ber og kjöt eða fisk á kostnað sykurs og brauðs. Enn getum við aukið nýtingarhlutfall matvæla, aukið næringu og tryggt betur rekjanleika svo og sjálfbæra framleiðslu hér í Evrópu og Bandaríkunum. “

Frá sprotafyrirtæki til alþjóðaleiðtoga

Árni Oddur hefur umbylt fyrirtækinu á þeim fimm árum sem hann hefur verið forstjóri. Hann kom inn í félagið árið 2004 sem fjárfestir með föður sínum, Þórði Magnússyni í gegnum fjárfestingarfélag þeirra Eyri Invest og gerðist stjórnarformaður félagsins árið 2005. Það var svo árið 2013 sem hann söðlaði um og gerðist forstjóri Marel . „Við höfðum áhuga á því að fjárfesta í þessu félagi vegna mannauðsins, hér var mikið af sterku fólki og salan var góð víða í heiminum. Þegar við fórum að skoða atvinnugreinina þá greindum við engan augljósan leiðtoga, möguleikarnir voru því miklir. Við sáum að það mátti auka þjónustuhlutfallið sem hlutfall af tekjum, nútímavæða framleiðsluferlana og leggja enn meira í nýsköpun og markaðssókn. Þetta eru stærstu verkefnin, ekki bara hjá Marel heldur almennt í iðnaði.

Viðskiptavinir okkar eru að stækka og það er krafa um samþættingu. Við lögðum niður planið og við trúðum því að ef við yrðum alþjóðlegra fyrirtæki sem gæti boðið upp á heildarlausnir sem saman standa af vélbúnaði og tölvukerfi þá myndum við lifa okkar framtíðarsýn og umbylta matvælaiðnaðinum. Við förum auðvitað ekkert án viðskiptavina okkar, árið 1992 var nýtingarhlutfallið 60% en það er 80% í dag í íslenskri fiskvinnslu sem þýðir að það þarf að veiða þrjá fiska í staðinn fyrir fjóra til að fæða sama fjölda. Aukningin hefur verið stöðug og við höfum fylgt atburðarásinni með yfirtökum og einsett okkur að læra mikið af þeim.“

Hvaða áskoranir eru fram undan?

„Helsta áskorunin er að vera alltaf mjög nálægt viðskiptavininum þrátt fyrir að vera alþjóðlegt fyrirtæki. Vöxturinn er að eiga sér stað í Suður Ameríku og Asíu. Við erum að styrkja vel starfssemi okkar í þessum löndum og sem dæmi í matvælakistu heimsins, Suður Ameríku erum við nú þegar með 700 starfsmenn sem eru að hanna, framleiða, selja og þjónusta viðskiptavini á þessum stóra vaxtarmarkaði. Við höfum einnig mjög gott aðgengi að hæfileikaríku fólki á þessum stóra markaði þar sem fólk er vel menntað en efnahagslífið hefur verið í lægð síðustu ár. Áskorun nú er einnig að nýsköpun gerist æ meira í auknu samstarfi við viðskiptavini og önnur tæknifyrirtæki. Við höfum ávallt verið í samstarfi við viðskiptavini um lausnir og erum sífellt að verða betri og betri í að samnýta tækni með öðrum fyrirtækjum.

Áskorun nú er einnig að nýsköpun gerist æ meira í auknu samstarfi við viðskiptavini og önnur tæknifyrirtæki.

Síðustu ár höfum við líka á meðan við höfum verið að vaxa aukið gæði tekna Marel. Nú erum við ekki einungis í fiski heldur líka í kjúklingi og rauðu kjöti með góða dreifingu sölu um heim allan. Þegar kjúklinga- eða svínaflensa á sér stað er hún yfirleitt bundin við landssvæði og neytendur gerast ekki grænmetisætur yfir nótt heldur flakka á milli próteinflokka. Við höfum einnig vaxið í þjónustutekjum og telja þær nú um 35% heildartekna okkar. Þjónustutekjur koma inn í góðum og mögrum árum, allt þetta er til þess fallið að dreifa áhættu.

Marel fjárfesti 9 milljörðum á síðasta ári í nýsköpun. „Það skiptir mjög miklu máli að starfsfólk hafi frelsi til athafna og því takist að halda í hugmyndaauðgina. Ég hef mikla trú á skýrum ramma hvað varðar nýsköpun, þegar ramminn er ekki skýr eru yfirmenn að anda ofan í hálsmálið á starfsfólki sínu og þannig má það ekki vera,“ segir Árni Oddur.

Ég vil ekki að fólk slíti sér út eða vinni á kvöldin eða um helgar því það þarf að eiga innistæðu, þetta er krefjandi vinna og mikið um ferðalög.“
Ernir Eyjólfsson

Ákveðnir hlutir endurskrifaðir í námi

Árni Oddur er fæddur og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur og býr þar enn með eiginkonu sinni og þremur börnum. „Ég fór þessa klassísku leið, ég gekk í Melaskóla, Hagaskóla, MR og fór svo í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Ég fór að vinna á fjármálamarkaði og varð mjög heillaður. Ég stofnaði Eyri Invest með föður mínum árið 2000 þá var hann búinn að vera í Eimskip í 20 ár og ég hafði starfað í Búnaðarbankanum. Ég fór í framhaldsnám til Lausanne í Sviss til að víkka sjóndeildarhringinn, þá var ég að hugleiða það hvort ég gæti átt erindi í iðnrekstri,“ segir Árni Oddur og segir námið hafa reynst sér gott veganesti. Samnemendur hans voru margir stjórnendur úr stórum matvælafyrirtækjum. „Ég lærði ekki síður af þeim en kennurum mínum og þegar ég kom heim þá breyttum við um fjáfestingarstefnu Eyris Invest og fórum að einblína á leiðtoga í iðnaði og tækni. Það voru ákveðnir hlutir í hausnum á mér sem voru endurskrifaði í þesu námi, þá helst hvað varðar skipulagningu og vinna innan ramma, vera með skýr markmið,“ segir Árni Oddur.

Fór gegn eigin sýn fyrstu árin

Árni Oddur kom af miklum krafti að rekstri félagsins sem forstjóri og gerði miklar breytingar á framkvæmdastjórninni og markmiðum fyrirtækisins.

Ég réð fyrst inn fólk sem var með svipaða styrkleika og ég sem stjórnandi.

„Það fyrsta sem ég gerði var að endurskipuleggja framkvæmdastjórnina því þetta er teymisvinna og það sem kom kannski stjórninni helst á óvart var að ég réð fyrst inn fólk sem var með svipaða styrkleika og ég sem stjórnandi. Ég sagðist þá þekkja sjálfa mig, ég þyrfti að ráða fólk sem væri jafnvel betra en ég svo ég næði að hlúa að nýsköpun og viðskiptavinum. Við skulum ekki gleyma því að við höfðum mikinn mannauð og yfirmenn hinna ýmsu sviða í framkvæmdastjórn komu að mestu innan fyrirtækisins.

Eftir mikinn vöxt áranna á undan, m.a. með fyrirtækjakaupum þurftum við að einfalda og samþætta reksturinn. Stærsta áskorunin mín var að fara gegn því sem ég trúi mest á fyrstu tvö árin og vera með „top -down“ stjórnun, þetta var krefjandi tími og á meðan við settum upp nýtt skipulag, fækkuðum verksmiðjum og breyttum aldurssamsetningu og kynjahlutföllum innan fyrirtækisins þurftum við líka að passa upp á viðskiptavininn. Fjölmörg fyrirtæki sem fara í endurskipulagningu á rekstri horfa of mikið inn á við í stað þess að hlúa að þörfum viðskiptavina. Við skerptum á sölumálum og náðum að auka sölu um 25% á þessum tveimur árum á meðan við vorum að straumlínulaga rekstur. Ég einsetti mér að þetta tímabil myndi vara í mesta lagi í tvö ár og skrifaði sjálfum mér bréf að fara til baka í þann stjórnunarstíl sem ég trúi á, bottom-up þar sem krafturinn og hugmyndaauðgin í fjöldanum nær að blómstra.“

Ég einsetti mér að þetta tímabil myndi vara í mesta lagi í tvö ár og skrifaði sjálfum mér bréf að fara til baka í þann stjórnunarstíl sem ég trúi á.

Einsleitni skilar ekki góðum árangri

Af hverju var mikilvægt að gera þessar breytingar?

„Við erum í alþjóðlegri samkeppni, og erum með minna en 4% af tekjum okkar frá Hollandi og Íslandi og verðum að skilja hvað viðskiptavinurinn okkar vill, það er mjög ólíklegt að við náum þeim skilningi ef við erum einsleitur hópur, fimmtíu ára karlkyns verkfræðinga frá Evrópu,“ segir Árni Oddur og hlær. „Einsleitni skilar ekki góðum árangri en það getur verið erfitt að ná fjölbreytileika. Fyrirtæki sem reyna að umbreytast á einni nóttu deyja. Þetta er langhlaup og stundum er það þannig að hlutföllin færast aftur á bak við hverja yfirtöku þannig að stundum tökum við tvö skref áfram en förum svo eitt til baka. Við erum einnig að vinna í aldursdreifingunni og þess að ráða fleiri utan Evrópu og Bandaríkjanna því framundan er mikill vöxtur á þeim mörkuðum.“

Einsleitni skilar ekki góðum árangri en það getur verið erfitt að ná fjölbreytileika

Engir tölvupóstar eftir klukkan 2 á föstudögum

Hverjir eru gallar þínir sem stjórnandi?

„Ég þarf endalaust að minna mig á að keyra ekki alla of hratt og ætlast ekki til þess sama af öllum. Eitt af grunngildunum okkar er metnaður en styrkleikar fólks geta auðveldlega orðið veikleikar. Fullkomnun má aldrei verða markmið, heldur að verða betri í dag en í gær. “

Árni Oddur lýsti vinnutörninni sem hann hefur verið í undanfarið vegna tvískráningar fyrirtækisins. Hann á stóra fjölskyldu og segist reyna að eiga góðar stundir með þeim. „Ég segi við sjálfan mig í þessu annríki öllu saman að það séu gæðin sem skipti máli þegar kemur að tíma, en auðvitað er erfitt fyrir konuna mína og börnin mín að ég sé svona mikið fjarverandi. Ég er hins vegar þeirrar gæfu aðnjótandi að ég vinn ekki á kvöldin og ekki um helgar þegar ég er heima á Íslandi. Síminn truflar mig ekki og ég held að margir yrðu hissa þegar þeir vita hvað það er lítið hringt í mig eða hve lítið ég er truflaður utan hefðbundins vinnutíma.

Ætlast þú til hins sama af starfsfólki þínu og af þér sjálfum? Að eiga svona góðan tíma með fjölskyldunni um kvöld og helgar?

„Nú get ég verið alveg heiðarlegur því ég hef síðustu tvö ár gengið á alla stjórnendur og beðið þá um að senda ekki tölvupósta eftir klukkan tvö á föstudögum. Þeir tölvupóstar sem fólk sendir þá verður hvort sem er ekki leyst úr fyrr en á mánudegi en geta truflað mikið samstarfsfólk þegar það á að einbeita sér að sjálfum sér og fjölskyldu. Ég er líka duglegur að spyrja fólk hvernig það eyðir deginum sínum. Ég vil ekki að fólk slíti sér út eða vinni á kvöldin eða um helgar því það þarf að eiga innistæðu, þetta er krefjandi vinna og mikið um ferðalög,“ segir Árni Oddur og lítur á klukkuna sem er að ganga fimm. „Nú er til dæmis kominn tími til að fara heim,“ segir hann og brosir.

Ég hef síðustu tvö ár gengið á alla stjórnendur og beðið þá um að senda ekki tölvupósta eftir klukkan tvö á föstudögum.