„Kannski er að opnast nýr markaður fyrir þorskhausa í Bandaríkjunum, hver veit,“ segir Þorsteinn Másson, svæðisstjóri fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax í Bolungarvík, um fregnir af meintum áformum Michelle Ballarin, eiganda WOW air, um að flytja þorskhausa til Bandaríkjanna.

Fregnirnar komu sjávarútvegsfyrirtækjum í opna skjöldu og bendir Þorsteinn á að það þyki óvenjulegt að flytja þorskhausa með flugi til útlanda, þar sem um sé að ræða þurrkaða vöru sem vanalega er send út í gámum. Flug sé notað til að koma ferskri vöru á markað sem hefur takmarkað geymsluþol.

Gunnar Steinn Pálsson almannatengil Michelle Ballarin, segir í samtali við Fréttablaðið um að sé að ræða misskilning.

„Þetta átti að vera brandari þegar ég ræddi við blaðamanninn í gær,“ segir Gunnar og hlær og bætir við að öllu gamni slepptu þá sjái Ballarin mikið tækifæri í því að flytja ferskan íslenskan fisk á austurströnd Bandaríkjanna. Hann segir Ballarin hafa almennt mikinn áhuga á útflutningi á íslenskum vörum.

„Að nýta tóma legginn til baka er freistandi,“ segir Gunnar. Ballarin vilji leggja mikla áherslu á fraktflug samhliða því að byggja upp farþegaflugið. Hún hafi unnið mikið með bandarískum stjórnvöldum í frakt­flutn­ing­um og verði því nóg um að vera í tengslum við uppbygginguna við Keflavíkurflugvöll.

Bandaríski herinn og NATO áætla að setja 14 milljarða í framkvæmdir í uppbyggingu og viðhald við Keflavíkurflugvöll á næstu árum.