Tvíhliða samningaviðræðum milli Noregs og Bretlands um kvótaskipti sigldu í strand fyrir helgi. Það þýðir að stór hluti breska fiskveiðiflotans verður verkefnalaus það sem eftir lifir árs, að því er kemur fram í tilkynningu United Kingdom’s National Federation of Fishermen’s Organisations (NFFO). Frá þessu er greint á vefsíðu NFFO.

Bretar og Norðmenn hafa um árabil skipt á aflaheimildum í lögsögu sinni, þar sem Norðmenn hafa fengið uppsjávarkvóta í breskri lögsögu. Breskar útgerðir hafa svo getað veitt bæði botn- og flatfiskategundir í norska hluta Norðursjávar og á miðum norðaustur af Noregi. Samningaviðræðum hefur verið slitið að fullu og næst munu sendinefndir frá löndunum tveimur reyna að ná niðurstöðu um kvótaskipti fyrir árið 2022.

Bresk skip hafa veitt í norskri lögsögu um áratugaskeið. Haft var eftir Jane Sandell, forstjóra UK Fisheries Limited, sem hefur höfuðstöðvar í Hull á Bretlandi, að um væri að ræða svartan dag fyrir breskan sjávarútveg. Loforð yfirvalda um auknar aflaheimildir til handa breskum fiskiskipum í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafi síður en svo staðist, heldur þvert á móti.

„Afleiðingin er sú að engin þorskur veiddur af breskum skipum, sem er þjóðarréttur okkar (e. fish & chips), verður seldur á okkar veitingastöðum. Allt verður keypt af Norðmönnum, sem munu áfram geta selt fisk inn á okkar markaði án þess að greiða nokkra tolla á meðan við getum ekki sótt sömu mið og vanalega. Þetta er hneyksli og sneypa,“ er jafnframt haft eftir Sandell.