Ég myndi skjóta á að viðskiptabankarnir, Kvika og tryggingarfélögin gætu átt rúmlega 150 milljarða króna sem þau gætu hæglega greitt út til hluthafa – þar á meðal ríkisins,“ segir Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital.

Á meðal þeirra er Arion banki sem er með svo mikið eigið fé að nær ómögulegt er að ávaxta það í takt við markmið bankans. „Staða okkar er sú að við erum feikilega vel fjármögnuð. Eiginfjárhlutföll eru langt umfram kröfur eftirlitsstofnana og líklega þau hæstu í Evrópu,“ segir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion, í samtali við Markaðinn.

„Við vonum því að Seðlabankinn taki til greina að eiginfjárstaða banka er mismunandi og heimili arðgreiðslur á næsta ári. Þegar banki er kominn með svo mikið eigið fé byrjar það að hafa hamlandi áhrif.“

„Þegar banki er kominn með svo mikið eigið fé byrjar það að hafa hamlandi áhrif.“

Þegar kórónakreppan skall á heimsbyggðinni voru viðbrögð eftirlitsstofnana víða um heim að leggja tímabundið bann við arðgreiðslum eða gefa út tilmæli um að fresta þeim. Seðlabankinn gaf íslenskum bönkum þess konar tilmæli.

Fyrr í þessum mánuði varð Svíþjóð fyrsta Evrópulandið til þess að opna á möguleikann á því að bankar greiddu út arð á næsta ári. Sænsk eftirlitsyfirvöld sögðu að „einhverjar“ arðgreiðslur yrðu leyfðar ef óvissan í hagkerfinu héldi áfram að minnka.

Carolyn Rogers, formaður Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit, er ekki jafn bjartsýn fyrir hönd evrópskra banka. Í viðtali við Financial Times í gær sagði Rogers of snemmt fyrir banka að hrósa sigri vegna viðbragða sinna við kórónukreppunni og færði rök fyrir því að arðgreiðslur þyrftu að bíða þar til ljóst væri hver langtímaáhrif faraldursins yrðu.

„Fjármagnið hverfur ekki. Ef höggið er ekki jafn stórt og við teljum þá geta bankarnir greitt það út síðar,“ sagði Rogers. „Það verða áföll og umfangið er ekki ljóst á þessu stigi. Það er langt í land.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur einnig gefið í skyn að bankar geti þurft að bíða með arðgreiðslur þar til ljóst sé hversu mikið tap þeir þurfi að taka á sig vegna kóróna­kreppunnar.

„Ég tel eðlilegt að bankarnir bíði áfram með arðgreiðslur þar til við sjáum fyrir endann á þessu ástandi og hversu mikið tap þeir þurfa að taka á sig. Mig grunar að það taki eitt eða tvö ár,“ sagði Ásgeir í viðtali við Markaðinn í lok ágúst þegar hann var spurður hversu lengi þessi tilmæli myndu gilda. Mögulega gætu bankarnir því ekki byrjað að greiða út arð fyrr en árið 2022.

Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka.
Ljósmynd/Arion banki

Evrópskir bankar og greinendur á fjármálamarkaði hafa bent á að arðgreiðslubann geti haft öfugsnúnar afleiðingar. Frá því í mars hefur samanlagt markaðsvirði 66 stærstu banka Evrópu fallið um 250 milljarða evra, um 25 prósent, en ein skýringin er sú að fjárfestar hafa jafnan sóst eftir hlutabréfum banka vegna arðgreiðslugetu þeirra.

Hrun í markaðsvirði þýðir að evrópskir bankar eru verr í stakk búnir til þess að afla hlutafjár til að fjármagna útlán en þeir voru áður en arðgreiðslubannið var sett.

„Erlendis eru greinendur og fjárfestar farnir að spyrja hvort verið sé að fæla fjárfesta frá bönkum með því að heimila þeim ekki að greiða út arð eins og önnur fyrirtæki,“ segir Stefán hjá Arion banka. „Ef hluthafar eru settir í annað sæti verður þá einhver annar en ríkið tilbúinn að koma að innspýtingu eiginfjár í banka þegar eitthvað bjátar á? Víða hafa menn hafa áhyggjur af því að afskipti af þessu tagi geti dregið dilk á eftir sér til lengri tíma.“

Alltaf einhver sem borgar

Spurður hvort bankinn geti komið umfram eigin fé sínu, sem nam 41 milljarði króna samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri, í gagnið svarar Stefán neitandi.

„Umfram eigið féð liggur að mestu leyti aðgerðalaust hjá okkur. Jafnvel þótt við vildum nota það í útlán eru aðstæður þannig að ekki er nægilegt aðgengi að lánsfé til að koma öllu þessu eigin fé í útlánastarfsemi,“ segir Stefán. Bankinn þurfi lánsfjármögnun á móti eigin fé til þess að geta boðið lán á góðum kjörum. „Hún er einfaldlega ekki til staðar í nægilegum mæli. Við getum því ekki fundið þessu farveg.“

Stefán bendir á að ofgnótt eiginfjár geti falið í sér margvíslegan kostnað. Til að mynda verði vaxtakjör hærri en ella til þess að standa undir arðsemi eiginfjár. „Það er alltaf einhver sem borgar.“

Eiginfjárhlutfall íslenskra banka nam að meðaltali 24,8 prósentum um mitt ár samkvæmt samantekt Bankasýslu ríkisins. Var hlutfall þeirra það þriðja hæsta í Evrópu, og það hæsta á Norðurlöndunum.

126013395_368029237802021_9069580144146398197_n.jpg

Í fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er fallið frá kröfum um arðgreiðslu frá Íslandsbanka og Landsbankanum á tímabilinu 2020 til 2021. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í nýlegu viðtali við Markaðinn að bankinn gæti greitt út arð en mikilvægt væri að hann gæti tekist á við þann efnahagsvanda sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. „Við gerum það með því að viðhalda sterkri lausafjár- og eiginfjárstöðu.“

Kvika banki verður með eiginfjárhlutfall upp á tæp 28 prósent þegar tekið er tillit til hagnaðar bankans það sem af er þessu ári en 26,9 prósent ef tekið er mið af áformum um arðgreiðslu. „Til lengri tíma litið er það orðið óskynsamlega hátt eiginfjárhlutfall en á þessum tímum er það jákvætt vandamál,“ sagði Marinó Örn Tryggvason, forstjóri bankans á kynningarfundi eftir birtingu síðasta uppgjörs.

Snorri hjá Jakobsson Capital segir ekki vera bjartsýnn á að Seðlabanki Íslands leyfi miklar arðgreiðslur hjá bönkum á næstunni. Seðlabankinn kunni að telja varasamt að hleypa 150 milljörðum króna inn á markaðinn þegar sjá má merki um mikla spennu á fasteignamarkaði.

„Þar sem helstu veð bankanna eru fasteignir og því mjög slæmt fyrir fjármálastöðugleika ef það verður bólumyndun á fasteignamarkaði.“