Rekstraraðilar í matvöruverslunargeiranum sátu límdir við skjáinn síðdegis í gær líkt og allir aðrir landsmenn að fylgjast með blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.

Eftir að bomban féll um hertar sóttvarnaraðgerðir fóru í gang aðgerðaráætlanir hjá verslunum eins og Krónunni og Bónus og pantanir byrjuðu að hrynja inn hjá þeim verslunum sem bjóða upp á netpantanir og heimsendingar.

Fólk gleymir sér í röðunum

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir stjórnendur og starfsmenn verslananna vinna saman eins og vel smurð vél eftir heilt ár af aðgerðum.

„Við erum auðvitað orðin þjálfuð í þessu og göngum að aðgerðaráætlunum frá fyrri takmörkunum og keyrum þær í gang,“ segir Ásta í samtali við Fréttablaðið.

Sama gildir hjá Bónus en fyrirtækið hefur einnig getað nýtt eldri aðgerðaráætlanir. „Maður er kominn í ákveðna þjálfun með þetta, því miður,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus.

Margar matvöruverslanir hafa lengt opnunartíma sína til að bregðast við aukinni þörf.

„Við erum með auka fólk í verslunum, bæði til að telja inn í verslanir og til að auka þrif. Við sprittum alla mikilvæga snertifleti, sérstaklega í sjálfsafgreiðslunni og biðjum viðskiptavini okkar að vera ekki að skila kerrunum á sama stað því við viljum ná að taka þær og spritta vel þannig að við tryggjum að þær séu hreinar fyrir næstu viðskiptavini. Sömuleiðis eflum við allar merkingar, sérstaklega á gólfinu við röðina að kassanum þar sem fólk á til að gleyma sér og þétta raðirnar,“ segir Ásta.

Íslendingar fóru strax að hamstra í upphafi faraldursins í fyrra.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Hakkið nýi COVID-maturinn

Neysluvenjur Íslendinga hafa breyst í gegnum faraldurinn. Í upphafi hömstruðu Íslendingar ttil dæmis dósamat og klósettpappír og þá vakti mikla athygli þegar Ora fiskibollur í dós seldust upp í Krónunni. „Það var ákveðið bíómyndamóment þegar allt nánast kláraðist í dósahillunum,“ segir Ásta og útskýrir að nú sé staðan allt önnur.

„Viðskiptavinir okkar taka þessu ástandi með ró enda vita þeir eftir síðustu bylgjur að þeir geta gengið að okkar vörum vísum. En neyslan breytist auðvitað þegar börnin eru heima í stað þess að vera í skólanum og mötuneyti eru lokuð og þá þurfa fjölskyldur að redda sér hádegismat og millimáli. Sala á brauði, áleggi, kexi, núðlum, morgunkorni og öllu helsta nasli í millimál, eykst til muna,“ segir Ásta. Vinsælasta varan þessa stundina er hakkið.

„Hakkið selst eins og heitar lummur. Það er greinilega nýi COVID-maturinn.“

Fiskibollurnar kláruðust strax í upphafi faraldurs. Nú er það hakkið sem er vinsælast.

Aðspurður segir Baldur mikinn ótta hafa gripið um sig meðal Íslendinga í byrjun faraldursins, sérstaklega eftir að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, lýsti því yfir að Bandaríkin myndu loka landamærum sínum. Mátt sjá greinilega breytingu í neysluhegðun Íslendinga.

„Þá fór allt af stað. Við á skrifstofunni mættum öll í verslanirnar til að fylla á hillurnar. Um leið og við fylltum á eina hillu var hún orðin tóm næst þegar við snerum okkur við,“ segir Baldur.

Þá hafi Íslendingar hamstrað aðallega pasta, hrísgrjón og klósettpappír. Á vefsíðu Bónus má finna lista yfir æskilegt birgðahald í heimsfaraldri. „Fólk hefur kannski bara tekið þann lista og mætt í búðina.“

Nóg til af páskaeggjum

Mest er að gera í matvöruverslunum milli klukkan fjögur og hálfsjö. Krónan hvetur viðskiptavini sína til að dreifa komum yfir daginn „en svo er auðvitað lang auðveldast að panta bara beint úr símanum í Snjallverslun okkar og fá seint heim eða sækja í stað þess að mæta í búðina.“

Bónus tekur í sama streng og segir best ef einn fer úr hverri fjölskyldu til að versla inn fyrir heimilið.

Þegar talið berst að hömstrun vegna hertra sóttvarnaaðgerða segja Ásta og Baldur enga ástæðu til þess.

„Það er nóg af vörum, við erum með góðar birgðir og erum búin að panta mikið inn nú þegar styttist í páska, sem er jú mikil matarhátíð. Fólk þarf ekki að örvænta: Það er nóg til af páskaeggjum og gómsætum páskamat,“ segir Ásta.

„Ég held að Íslendingar séu rólegri núna en í fyrra. Við þekkjum þetta svo vel,“ segir Baldur.

Ekki örvænta: Það er nóg til af páskaeggjum í verslunum.
Fréttablaðið/Ernir