Færsluhirðirinn Borgun segir að tölvupóstur um veltutryggingingu, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlun á síðustu dögum, hafi einungis verið sendur á um 3 prósent viðskiptavina og eigi einungis við um þá. Þeir sem hafi fengið tölvupóstinn selji mestmegnis þjónustu áður en hún er veitt og ekki sé um skilmálabreytingu að ræða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Borgun.

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun vikunnar að Borgun hefði tilkynnt viðskiptavinum um skilmálabreytingar. Í tölvupósti til viðskiptavina kæmi fram að tekin yrði upp svokölluð veltutrygging frá 1. október. Þannig héldi Borgun eftir 10 prósentum heildarfjárhæðar allra færslna á uppgjörum í sex mánuði.

„Þetta er alrangt,“ segir í fréttatilkynningu Borgunar. „Tölvupósturinn, sem fjölmiðlar virðast hafa byggt fréttir sínar á, var sendur á um 3% viðskiptavina Borgunar og á einungis við um þá. Allt eru þetta aðilar sem eru í þeirri stöðu að selja mestmegnis þjónustu áður en hún er veitt. Ekki er um skilmálabreytingu að ræða, líkt og ranglega hefur komið fram, heldur er um að ræða aðgerð sem er heimil í gildandi skilmálum og snýr að því að lágmarka áhættu.“

Borgun ítrekar að hvergi hafi komið fram í tölvupóstinum að um væri að ræða almennar aðgerðir sem hefðu áhrif á alla viðskiptavini Borgunar. Engar breytingar hafi verið gerðar á viðskiptaskilmálum Borgunar og 97 prósent af viðskiptavinum Borgunar verði ekki fyrir neinum áhrifum.

„Veltutryggingunni er einungis beitt í tilfelli ferðaþjónustufyrirtækja þar sem nauðsynlegt er að tryggja að hægt sé að standa við skuldbindingar við korthafa sem keypt hafa vörur og þjónustu fram í tímann,“ segir í fréttatilkynningunni. Borgun muni halda áfram að styðja við ferðaþjónustuna í landinu eins og fyrirtækið hefur gert síðustu mánuði. Fyrirtækið hafi á þessu tímabili ekki hert sína skilmála umfram aðra keppinauta.

„Fyrir tilstilli sérstakra aðgerða, sem Borgun greip til, hefur ferðaþjónustan notið meira en 90 daga vaxtalausrar fjármögnunar á skuldbindingum sínum gagnvart ferðamönnum sem keypt hafa ferðir, gistingu og afþreyingu fram í tímann.“

Þá er enn fremur ítrekað að hjá Borgun verði engum greiðslum haldið eftir vegna vöru eða þjónustu sem þegar hefur verið veitt. „Þetta á við um alla viðskiptavini Borgunar, í ferðaþjónustu sem og í öðrum greinum.“