Eins og fram hefur komið eru gjaldþrot Silicon Valley Bank og Signature hið annað og þriðja stærsta í sögu Bandaríkjanna. Einungis lítill hluti innistæðna var tryggður en um helgina var tilkynnt að bandaríski innistæðutryggingasjóðurinn myndi tryggja allar innistæður og þar með var hrinu gjaldþrota sprotafyrirtækja afstýrt.
Þá keypti HSBC-bankinn útibú SVB í Bretlandi um helgina og þar með var tryggt að viðskiptavinir þar í landi yrðu ekki fyrir tjóni vegna gjaldþrotsins. Engu að síður hafa fjárfestar áhyggjur af því að fjármögnunarumhverfi verði mun þyngra en áður.
Fjármögnunarumhverfið var þó þegar orðið þyngra, eins og kom fram hjá Þórði Magnússyni, stjórnarformanni Eyris Invest, í Fréttablaðinu í gær. Háir vextir voru þegar farnir að hamla fjármögnun sprotaverkefna sem og annarra verkefna.
Doktor Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor og stjórnandi miðstöðvar um kerfisáhættu við London School of Economics, segir engar líkur nú vera á því að fall SVB leiði til atburða neitt í líkingu við það sem gerðist árið 2008 þegar fjölmargir bankar um víða veröld féllu eins og dóminókubbar og íslenska bankakerfið hrundi til grunna.
Tel ólíklegt að Credit Suisse falli að óbreyttu.
Jón Daníelsson, prófessor við LSE.
Jón segir SVB hafa verið óvenjulegan banka að því leyti til að hann lánaði lítið út innistæður heldur fjárfesti fyrst og fremst í skuldabréfum. Á einu ári hafi eignir og efnahagsreikningur bankans tvöfaldast, úr 100 milljörðum Bandaríkjadala í 200 milljarða, og bankinn keypt skuldabréf á mjög lágum vöxtum. Bankinn hafi haft áform um að eiga þessi bréf til langframa og því hafi honum ekki borið að skrá markaðsverðmæti þeirra í bækur sínar frá degi til dags.
Þegar vextir tóku að hækka lækkuðu skuldabréfin í verði. Einhverjir hafi áttað sig á því að skuldabréfaeign bankans væri ofmetin í bókum hans af þessum völdum og það leitt til þess að innlán tóku að skreppa saman. Bankinn neyddist að lokum til að selja hluta skuldabréfasafns síns til að standa undir úttektum fjár og þá hafi tapið opinberast. Viðskiptavinir gerðu áhlaup á bankann og hann féll í fang innistæðutryggingasjóðs bandaríska bankakerfisins, FDIC, fyrir helgi.
Robert Kiyosaki, þekktur fjárfestir, sem sagði fyrir um fall Lehman Brothers 2008, segir að stórbankinn Credit Suisse muni lenda í miklum hremmingum vegna eftirkasta falls SVB. Jón Daníelsson er ekki á sama máli. Hann segir Credit Suisse hafa lent í mörgum áföllum á undanförnum árum vegna þess að bankanum hafi verið illa stjórnað. Hann standi ekki vel og þegar truflun verði á mörkuðum sé bankinn viðkvæmur. Hann telur þó ólíklegt að Credit Suisse muni riða til falls að óbreyttu.
Seðlabankinn vildi í gær ekki tjá sig um áhrif falls SVB á íslenska bankakerfið en vísaði til þess að ritið Fjármálastöðugleiki kemur út í dag og þar sé vikið að þessum atburðum og áhrifum þeirra á Ísland.
Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að nánast öll skuldabréfaeign íslenskra banka sé skráð á markaðsvirði og því standi þeir ekki frammi fyrir sambærilegum vanda og varð SVB að falli. Þá er fjármögnun íslensku bankanna traust og lögbundið eiginfjárhlutfall hærra en víða annars staðar.
