Flug­ferðir með nýju WOW air eru ekki á döfinni frá Dul­les flug­vellinum í Was­hington D.C sam­kvæmt svörum for­svars­manna flug­vallarins við fyrir­spurnum banda­rísku flug­frétta­síðunnar Simple Flying. Í um­fjöllun miðilsins segir að margt bendi til þess að ekkert sé að marka full­yrðingar um fyrstu flug­ferð í októ­ber.

Eins og fram hefur komið til­kynnti at­hafna­konan Michele Ballarin í byrjun septem­ber að búið væri að tryggja 85 milljónir dala í fjár­mögnun fé­lagsins. Fyrst til­kynnti hún að stefnt væri að flugi í byrjun októ­ber en tók síðar fram að hún hefði mis­reiknað sig, stefnt væri að fyrstu flug­ferðinni í lok októ­ber.

Í svari við fyrir­spurn banda­ríska miðilsins segjast for­svars­menn flug­vallarins í D.C hafa átt fund með Ballarin og sam­starfs­fé­lögum hennar um starf­semi flug­fé­lagsins í byrjun ágúst. Síðan hafi hins vegar ekkert heyrst og vita þeir ekki til þess að nein ferð sé skipu­lögð með fé­laginu frá vellinum.

Í um­fjölluninni er tekið fram að miðillinn hafi haft sam­band við banda­rísk flug­mála­yfir­völd sem og Isavia fyrir frekari upp­lýsingar um málið.