Á næstu vikum hefst vinna við að skoða hvernig Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem er í eigu ríkisins og fjárfestir í sprotafyrirtækjum, getur þroskast og vaxið í takt við þarfir atvinnulífsins. Þetta sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir nýsköpunarráðherra á ársfundi sjóðsins.

Hún sagði að sjóðurinn væri settur upp sem markaðsdrifinn áhættufjárfestir en það þurfi að ræða hvort það eigi að vera hans eina hlutverk. Mögulega geti hann veitt lán.

Eins og þekkt er hleypti Þórdís Kolbrún af stokkunum frumkvöðlasjóðnum Kríu sem fjárfesta mun í vísisjóðum til að efla fjármögnunarumhverfið fyrir hugvitsdrifinn fyrirtæki. Nýsköpunarsjóðurinn var um árabil eini sjóðurinn sem fjárfesti í sprotafyrirtækjum en á undanförnum árum hafa sprottið fram fjöldi einkarekinna vísisjóða sem gegna sama hlutverki. Ýmsir sem þekkja til nýsköpunarumhverfisins hafa því talið eðlilegt að hlutverk sjóðsins taki breytingum eða undið verði ofan af starfseminni.

Í ræðu sinni benti Þórdís Kolbrún á að Kría-sjóðurinn heyri undir Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Fékk tvö stór verkefni á síðasta ári

„Sjóðurinn hefur fengið til sín tvö stór verkefni síðasta árið sem hafa tengt hann betur við stefnumótun stjórnvalda á sviði nýsköpunar þar sem fagþekking og reynsla í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja hefur nýst vel. Bæði þessi verkefni eru að erlendri fyrirmynd þar sem hugsunin er að hið opinbera fylgi í kjölfar einkafjárfesta í fjármögnun fyrirtækja. Þessi verkefni hafa að mínu mati sýnt það að sjóðurinn getur gegnt stærra hlutverki í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi en hann hefur hingað til gert. Hlutverk sjóðsins í stuðningsumhverfinu hefur að mestu leyti verið óbreytt frá stofnun hans undir lok síðustu aldar og því tímabært nú að leiða hugann að því hvernig sjóðurinn getur þroskast og vaxið í takti við þarfir atvinnulífsins,“ sagði hún.

Eins og þekkt er hefur hagkerfið dregist hratt saman í COVID-19 heimsfaraldrinum. Þórdís Kolbrún sagði að nýsköpun væri leiðin úr kreppu. „Til að það megi verða að veruleika þarf stuðningsumhverfi nýsköpunar að breytast og þróast í takt við þarfir atvinnulífsins og samfélagsins. Spurningin sem við spyrjum okkur hlýtur meðal annars að vera sú: hvernig virkjar hið opinbera kraftinn, sem er sannarlega til staðar þarna úti, svo að hér á landi verði til öflug fyrirtæki sem byggi á hugviti og þekkingu og sem afli dýrmætra útflutningstekna og skapi verðmæt störf? Svarið er augljóslega margþætt. Við þurfum fjölbreytt verkfæri til að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og fjölbreytt atvinnulíf er það sem ég vil leggja mína hönd á plóginn við að skapa,“ sagði hún.

Tryggja samfellu í stuðningsumhverfinu

Þórdís Kolbrún sagði á að horft væri til þess að tryggja samfellu í stuðningsumhverfinu, allt frá strykjum frá Tækniþróunarsjóði yfir í endurgreiðslur rannsóknar og þróunarkostnaði auk annarrar fjármögnunar, svo sem lán og hlutafé.

„Sú fjármögnun getur hins vegar farið fram með mismunandi hætti eftir mismunandi þörfum sprotafyrirtækja,“ sagði hún. „Í ljósi jákvæðrar reynslu af sérstökum verkefnum síðastliðins árs er ástæða til að endurskoða það hvernig Nýsköpunarsjóðurinn sinnir sínu hlutverki að meginstefnu til.“

Hún sagði að í löndunum í kringum sé ýmsar útfærslur á ólíkum fjármögnunarleiðum sem hið opinbera býður nýsköpunarfyrirtækjum sem með einum eða öðrum hætti feli í sér innbyggða hvata til að draga einkafjárfesta með. „Þetta getur verið í formi mótframlagslána líkt og við gerðum með Stuðnings-Kríu sem geta verið háð mismunandi skilyrðum eftir þörfum. Þetta getur verið í formi lánsfjár með sérstökum skilyrðum eftir mismunandi stærð og þörfum fyrirtækja og hvar í vaxtarferlinu þau eru stödd.“

„Þetta getur verið í formi mótframlagslána líkt og við gerðum með Stuðnings-Kríu sem geta verið háð mismunandi skilyrðum eftir þörfum.“

Þórdís Kolbrún nefndi einnig að um gæti verið að ræða einstök áhersluverkefni stjórnvalda til að styðja við sérstakar greinar atvinnulífsins, svokallaðar markáætlanir í formi fjárfestinga.

„Margir möguleikar eru til staðar og nú er tækifærið til að nýta þá og gera breytingar í takt við breytingar í atvinnulífinu þar sem nýsköpun verður sífellt mikilvægari og Nýsköpunarsjóðurinn getur gegnt stærra hlutverki í því en hann hefur gert hingað til,“ sagði hún.