Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við Markaðinn að óhætt sé að fullyrða að endurreisn ferðaþjónustunnar sé hafin af fullum krafti.

„Allar tölur styðja það. Bæði ef við horfum til fjölda ferðamanna, sem hafa komið til landsins síðustu mánuði sem og gistinátta á hótelum. Þetta eru helstu mælikvarðar sem við höfum nokkurn veginn í rauntíma og þeir segja okkur báðir að þetta sé allt á uppleið,“ segir Bjarnheiður og bætir við að sumarið líti almennt vel út hvað ferðaþjónustuna varðar.

„Bókanir eru sums staðar á pari við árið 2019 eða það sem var fyrir faraldurinn. Við erum að sjá miklu hraðari bata en flestir reiknuðu með en auðvitað getur margt breyst en það er óhætt að segja að horfurnar eru góðar ef við horfum heilt yfir. Maður hefur jafnvel áhyggjur af því að við náum ekki að mæta allri eftirspurn, sérstaklega yfir háönnina. Það er sums staðar þétt bókað og ómögulegt að fá gistingu á sumum stöðum í júlí og ágúst. Einnig er farið að bera á skorti á bílaleigubílum sem hefur víðtæk áhrif.“

Haukur Birgisson, framkvæmdastjóri Travia, sem er markaðstorg fyrir ferðaskrifstofur, segir að það stefni í að á komandi mánuðum verði mikið að gera í ferðaþjónustu.

„Það hafa verið settar fram ýmsar spár varðandi fjölda ferðamanna og mín tilfinning er sú að fjöldi ferðamanna sem sækir landið heim muni fara fram úr væntingum,“ segir Haukur og bætir við að bókunarstaðan líti virkilega vel út á landsvísu.

„Ef við skoðum höfuðborgarsvæðið í júlí næstkomandi þá sjáum við um 600 prósenta aukningu miðað við sama tíma í fyrra. Ef við tökum ágúst erum við að horfa á um 500 prósenta aukningu.“

Bjarnheiður segir að þó sé björninn ekki unninn og mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu séu í fjárhagskröggum enn þá.

„Þetta er ekki búið þótt horfurnar séu góðar. Fyrirtækin eru öll meira og minna í sárum þannig að gott ár núna eykur líkur á að fleiri fyrirtæki hafi þetta af. Það þarf að hafa það í huga að stór hluti eigin fjár í greininni þurrkaðist nánast út meðan á faraldrinum stóð, þannig að það er mikið sem á eftir að vinna upp.“

Aðspurð hvort hún finni fyrir því að stríðið í Úkraínu hafi áhrif á ferðavilja segir hún svo alls ekki vera.

„Það hefur ekki sýnt sig á nokkurn hátt hér á Íslandi. Það er jafnvel hugsanlegt að hingað komi jafnvel enn fleiri ferðamenn fyrir vikið, því það eru ferðamannastaðir í Austur-Evrópu sem eru að detta út og þá beinist umferðin annað.“

Viðmælendur Markaðarins eru sammála um að sumarið líti almennt vel út hvað varðar ferðaþjónustuna
fréttablaðið/eyþór

Haukur segir að stríðið í Úkraínu hafi hægt á bókunartíðninni en hún hafi síðan náð sér á strik aftur. Hann bætir við að þó vel gangi í greininni séum við þó ekki komin á sama stað og við vorum fyrir faraldurinn.

„Við erum alls ekki komin þangað. Það getur verið að það séu einhver fyrirtæki sem standa betur en önnur vegna markaðsstöðu og slíks en ef við lítum á heildina er langt í að við komumst á sama ról og var fyrir faraldur.“

Haukur segir aðspurður hvort ferðaþjónustan muni eiga erfitt með að anna eftirspurn að það fari allt eftir því hvaða vara sé litið til.

„Það hefur verið rætt um það almennt að bílaleigur eigi ekki nægilega marga bíla til að mæta þörfum ferðamanna og það kann að vera að það dragi úr eftirspurn eftir hótelum úti á landi.