Þorsteinn Friðrik Halldórsson
tfh@frettabladid.is
Miðvikudagur 21. október 2020
06.00 GMT

Lyfjafyrirtækið Cori­pharma vinnur að því að ganga frá umfangsmikilli fjármögnun sem ætlað er að renna stoðum undir þróun á samheitalyfjum. Ef ætlanir Cori­pharma ganga eftir – en starfsemin byggist á þeirri gríðarmiklu þekkingu á lyfjaþróun sem uppgangur Actavis hafði í för með sér – mun það velta um 75 milljónum evra, jafnvirði 12,3 milljarða króna, árið 2025 og skapa 260 störf í þekkingargeiranum.

Jónína Guðmundsdóttir, sem tók við sem forstjóri Coripharma í apríl, hefur farið vandlega yfir framtíðarplön lyfjafyrirtækisins, enda krefst lyfjaþróun mikillar fyrirhyggju. Hún segir mikinn áhuga á því að reisa við burðugt þekkingarfyrirtæki á Íslandi.

„Við sjáum fram á að vera komin með stöðugan rekstur í lok árs 2023 en þangað til stefnum við á að fjárfesta talsvert í lyfjaþróun,“ segir Jónína í samtali við Markaðinn.

Coripharma sótti 2 milljarða króna í nýtt hlutafé í febrúar og hefur nú hafið annað fjármögnunarferli sem er í umsjón Kviku eins og hið fyrra. Umfang fjármögnunarinnar, sem félagið stefnir á að klára snemma á næsta ári, nemur 2,5 milljörðum króna.

Viðræður hafa átt sér stað við núverandi hluthafa, innlenda fjárfesta og einnig innlenda fagfjárfestasjóði sem lífeyrissjóðir koma að. Aðspurð segir Jónína ólíklegt að erlendir fjárfestar taki þátt í þessari fjármögnunarumferð.

„Við teljum okkur enn eiga inni hjá íslenskum fjárfestum og það má segja að Coripharma haki í mörg box sem eru í umræðunni í dag. Þetta er félag í þróunar- og tæknigeiranum sem stefnir að því að tvöfalda starfsmannafjöldann á næstu fimm árum. Við erum að byggja upp þekkingu og endurvekja lyfjaframleiðslu í landinu. Það er erfitt að finna góð fjárfestingatækifæri þegar vaxtastigið er svona lágt og fá félög í Kauphöllinni eru á miklu vaxtarskeiði. Raunar held ég að Coripharma gæti vel átt heima í Kauphöllinni eftir árið 2025,“ segir Jónína.

Coripharma verksmiðja lyf#2.jpg

Stærstu hluthafar Coripharma eru framtakssjóðurinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, félagið BKP Invest, sem er í jafnri eigu Bjarna og Kenneths Peterson, stofnanda Norðuráls, tryggingafélagið VÍS og Eignarhaldsfélagið Hof, í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona.

Á meðal fjárfesta sem bættust í hluthafahópinn á síðasta ári voru fjárfestingarfélögin Stálskip, Brimgarðar, sem eru í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna, og Eldhrímnir, en það er í eigu hjónanna Ingimundar Sveinssonar arkitekts og fjölskyldu. Þá er Pretium, félag í eigu Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, fyrrverandi forstjóra Actavis á Íslandi, einnig á meðal stærstu hluthafa.

Skyndilegt tækifæri

Coripharma hóf undirbúning verktökuframleiðslu á lyfjum fyrir alþjóðleg lyfjafyrirtæki með kaupum á verksmiðju Actavis í Hafnarfirði á miðju ári 2018.

Við kaup þess á lyfjaþróun Actavis í maí á síðasta ári, eignaðist Coripharma allar þróunar- og framleiðslueiningar Actavis á Íslandi og starfa þar nú tæplega 100 starfsmenn, en nær allir eru fyrrverandi starfsmenn Actavis. Lyfjaþróun Actavis átti að fylgja með risasölu á Medis, dótturfélagi Actavis sem heldur utan um sölu á hugviti samstæðunnar, til alþjóðlegs lyfjafyrirtækis, en þegar hætt var við söluferlið var ákveðið að ganga til viðræðna um sölu á þróunardeildinni til Coripharma.

„Upphaflega var gert ráð fyrir að Coripharma myndi einbeita sér að verktökuframleiðslu og byggja svo upp þróun til lengri tíma litið. En þegar skyndilega myndaðist tækifæri á að kaupa lyfjaþróun Actavis þá var stokkið til. Þetta var mikið gæfuspor því nú erum við með tvíþætt viðskiptalíkan þar sem hvort vegur annað upp.“

Eins og hugtakið gefur til kynna snýst verktökuframleiðsla um framleiðslu fyrir önnur lyfjafyrirtæki, sem eiga hugvitið á bak við lyfin. Framlegðin er ekki mjög há en með kaupum á lyfjaþróun Actavis kemst rekstur Coripharma hins vegar upp á næsta stig.

„Afurð lyfjaþróunar eru skráningarskjöl (e. dossier), sem eru í raun hillumetrar af pappírum með uppskriftum og öllum þeim prófunum sem staðfesta að samheitalyfið virki nákvæmlega eins og frumlyfið. Þarna erum við að tala um frumlyf með einkaleyfi sem rennur út á næstu árum og samheitalyfið getur þá komið inn á markaðinn,“ útskýrir Jónína.

„Við sjáum um þróun lyfsins, skráningu og framleiðslu en gerum samninga við erlend lyfjafyrirtæki um að þau fái að dreifa lyfinu undir sínum eigin vörumerkjum. Sem sagt, við segjum við kúnnann að hann geti farið inn á markaðinn með okkar hugvit en á móti fáum við hlutdeild í sölunni.“

Markaður í miklum vexti

Yfirleitt tekur þróunarferlið, það er frá því að þróunin er hafin og þangað til markaðsleyfið fæst, hátt í fjögur ár. Lyfjaþróun Actavis var hins vegar komin langt á veg með þróun nokkurra lyfja þegar hún var keypt yfir til Coripharma.

„Við munum fá markaðsleyfi fyrir fyrsta samheitalyfið, sem er flogaveikilyf, áður en einkaleyfið rennur út í júní 2021 og höfum nú þegar skrifað undir samninga við viðskiptavini í Suður-Evrópu þar sem frumlyfið hefur verið hvað mest notað. Við klárum síðan þriðja „dossierinn“ á þessu ári og fjóra á næsta ári. Þetta er allt að fara á fleygiferð.“

Næstu ár munu því annars vegar helgast af því að afla verktökusamninga við önnur lyfjafyrirtæki til að nýta framleiðslugetu verksmiðju félagsins í Hafnarfirði sem best og hins vegar að klára þróun og gera samninga um markaðssetningu á samheitalyfjum félagsins. Áform Coripharma gera ráð fyrir að fyrirtækið þrói fimm til sex lyf á ári.

„Við erum búin að velja lyf til að setja á markað á árunum 2021 til 2025 og nú erum við að horfa á árin 2026 til 2030. Við veljum verkefni sem henta okkar verksmiðju og vélakosti,“ segir Jónína. Hún bendir á að markaðurinn sé í miklum vexti.


„Við einblínum á flóknari lyf sem henta okkar verksmiðju og sigla oft undir radarnum hjá stærri framleiðendum.“


„Ef við horfum á allan lyfjamarkaðinn á alþjóðavísu þá er gert ráð fyrir að hann vaxi að meðaltali um 2,6 prósent fram til ársins 2029. Samheitalyfin vaxa hraðar, um 3,8 prósent, og taka þannig til sín markaðshlutdeild á kostnað frumlyfja. Ef við köfum enn dýpra og skoðum þann markað sem Cori­pharma er að einblína á, það er samheitalyf í töflu- eða hylkjaformi fyrir Evrópumarkað, þá er gert ráð fyrir að sá markaður vaxi um 5 prósent næstu tíu árin. Frumlyfin, sem eru vernduð með einkaleyfum sem renna út á árunum 2026 til 2030, eru því mjög verðmæt,“ segir Jónína.

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að tekjurnar þróist?

„Þrátt fyrir ungan aldur er Cori­pharma mjög eignaríkt félag. Við erum með fasteignir sem spanna 17.500 fermetra og eru metnar á 5 til 5,5 milljarða króna, brunabótamatið er 7,8 milljarðar króna. Þessum eignum fylgir talsverður fastur kostnaður og við miðum að því að ná verktökusamningum til þess að éta upp kostnaðinn. Það verður ekki fyrr en á árunum 2023 eða 2024, þegar við verðum komin með nokkur af okkar eigin þróuðu lyfjum á markaðinn, að við byrjum að sjá jákvæða rekstrarafkomu. Við sjáum fram á að tekjurnar verði í kringum 75 milljónir evra á árinu 2025 og EBITDA-markmiðið þá er 22 prósent. Á árinu 2030 sjáum við fram á að vera komin með yfir 100 milljóna evra veltu.“

Gæðamál vega þyngst

Hvernig er samkeppnishæfni verksmiðjunnar?

„Ákvörðun Teva um að loka verksmiðjunni snerist um að einfalda starfsemina, enda var fyrirtækið með 90 verksmiðjur eftir yfirtökuna á Actavis. Þau ákváðu að fækka verksmiðjum og loka minni einingum. En þessi tiltekna verksmiðja hafði alltaf verið mikilvæg og hún var oft notuð sem skotpallur fyrir ný samheitalyf á markað. Þau voru framleidd í verksmiðjunni til að byrja með og þegar framleiðslan komst í jafnvægi var hún færð til stærri verksmiðja erlendis.

Í íslensku verksmiðjunni hefur byggst upp gríðarleg þekking, sérstaklega á flóknum verkefnum, og þróunarteymið sem kom til okkar var lykilteymi innan Actavis á sínum tíma. Þetta skiptir viðskiptavini okkar miklu máli. Það hefur ekkert upp á sig að vera með ódýrasta birginn ef þú ert ekki með hágæðalyf á markaði á réttum tíma.“

Gæðamálin eru sem sagt lykil­atriði?

„Já, ekki spurning. Gæðamál eru aðgangsmiði að bransanum og þurfa að vera upp á tíu. Ef þú hugsar um 50 starfsmenn í framleiðslu þá þarf 30 manns í gæðamálin. Hver einasta lota sem fer í gegnum framleiðsluna er rýnd og svo rýnd aftur, af þeim sem hafa eftirlit með gæðum framleiðslunnar. Og það þarf að skoða allt í kringum framleiðsluna áður en vara fer á markað. Þessi verksmiðja hefur flogið í gegnum allar gæðaúttektir, hvort sem þær eru af hálfu viðskiptavina eða heilbrigðisyfirvalda frá öllum heimshlutum.“

Coripharma verksmiðja lyf#3.jpg

Þurfið þið að stækka við ykkur í fyllingu tímans?

„Lyfin sem við höfum valið til að þróa og setja á markað fram til ársins 2025 voru valin þannig að þau passi við vélarnar og afkastagetuna í Hafnarfirðinum. Auk þess erum við ekki að þróa samheitalyfin sem munu seljast í mesta magninu. Verksmiðja okkar getur ekki keppt í verðum við stóra framleiðendur á láglaunasvæðum sem keyra stórar lotur daginn út og daginn inn. Við einblínum á flóknari lyf sem henta okkar verksmiðju og sigla oft undir radarnum hjá stærri framleiðendum.“

Hefur COVID sett strik í reikninginn?

„Já, það er ekki hjá því komist. Við erum nýtt nafn í bransanum og þrátt fyrir háan starfsaldur og víðtækt tengslanet starfsmanna þurfum við að fljúga út um allan heim og mæta á þessar stóru ráðstefnur til þess að koma okkur almennilega á framfæri. Þetta hefur allt legið niðri. Við vorum með brattari vaxtaráætlanir fyrir COVID en höfum aðlagað þær breyttum aðstæðum.“

Nítján ár í lyfjageiranum

Ræðum aðeins um starfsferil þinn.

„Ég er í grunninn lyfjafræðingur, en hef í raun starfað á viðskiptahliðinni eftir að ég útskrifaðist rétt fyrir aldamót. Þá var að hefjast mikil uppbygging í þessari atvinnugrein. Ég starfaði fyrst hjá félagi sem var tekið yfir af Delta sem varð síðar að Actavis. Þar starfaði ég á markaðssviðinu fram til ársins 2003 þegar ég fór til Medis, dótturfélags Actavis, og leiddi þar meðal annars viðskiptaþróun,“ segir Jónína.

Jónína Guðmundsdóttir 09 (1).jpg

Starfsemi Medis fólst í því að selja hugvit Actavis til annarra lyfjafyrirtækja, sem nýttu það til þess að setja vörur á markað undir eigin nafni. Á tíu ára tímabili, frá árinu 2000 til ársins 2010, tífaldaðist velta Medis úr 20 milljónum evra upp í yfir 200 milljónir evra.

Lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals keypti Actavis árið 2016 og ákvað í kjölfarið að hefja söluferli á Medis. „Það ferli gekk mjög vel og við fengum bindandi tilboð í félagið, en það var ýmislegt sem breyttist í millitíðinni. Teva skipti um framkvæmdastjórn og endurfjármagnaði sig algjörlega, sem varð til þess að lausafjárþörfin minnkaði. Að lokum var ákveðið að hætta við söluferlið og innlima Medis í Teva og upp úr því ákvað ég að láta af störfum sumarið 2019.“

Allir vilja heim fyrir rest

Uppbygging lyfjaiðnaðarins gat af sér mikla þekkingu hérlendis. Þegar mest lét störfuðu um 850 manns hjá Actavis-samstæðunni á Íslandi, þar af um 70 hjá Medis og um 300 í verksmiðjunni. Höfuðstöðvar Actavis voru hins vegar fluttar til Sviss vorið 2011 og fylgdu margir íslenskir stjórnendur fyrirtækinu út.

„Margir hafa aldrei snúið aftur heldur farið að vinna hjá öðrum lyfjafyrirtækjum. Nær allir Íslendingar sem unnu hjá Actavis erlendis hafa nú hætt störfum hjá fyrirtækinu og starfa nú sem stjórnendur hjá lyfjafyrirtækjum úti um allan heim. Við höfum getið af okkur gríðarlega marga sérfræðinga og stjórnendur á þessu sviði.“

„Nær allir Íslendingar sem unnu hjá Actavis erlendis [...] starfa nú sem stjórnendur hjá lyfjafyrirtækjum úti um allan heim. Við höfum getið af okkur gríðarlega marga sérfræðinga og stjórnendur á þessu sviði.“

Sem dæmi um það hversu atkvæðamiklir Íslendingar hafa verið í alþjóðlegum lyfjaiðnaði, nefnir Jónína ráðstefnu árið 2015. Um er að ræða risastóra, árlega ráðstefnu sem laðar til sín tugi þúsunda gesta á hverju ári. Þar eru veitt verðlaun í ýmsum flokkum.

„Skömmu fyrir viðburðinn var greint frá sex tilnefningum í flokknum „Leiðtogi ársins“ en þar af voru þrír Íslendingar, eða Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Teva, og Valur Ragnarsson, forstjóri Medis. Þrjár af sex tilnefningunum Íslendingar. Það segir sína sögu.“

Þá er ekki ólíklegt að einhverjir stjórnendur muni snúa aftur heim eftir því sem umsvif Coripharma aukast. Að sögn Jónínu er mikill áhugi fyrir því að reisa við burðugt þekkingarfyrirtæki á Íslandi.

„Þegar verksmiðjan var sett aftur í gang voru tvö ár frá því að starfsemin var lögð niður. Fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur höfðu leitað á önnur mið. En þegar fjárfestar greindu þeim frá áformunum voru flestir tilbúnir að kasta öllu frá sér og stökkva út í óvissuna. Það er mikil ástríða fyrir því að byggja upp þekkingarfyrirtæki í lyfjaiðnaði á Íslandi. Og ég er í sambandi við fólk sem er starfandi hjá lyfjafyrirtækjum úti um allan heim og það langar alla heim fyrir rest. Fólk minnir á sig.“

Planið vandlega yfirfarið

Hvernig hafa fyrstu mánuðirnir í starfi forstjóra Coripharma verið?

„Við byrjuðum á því að fara vandlega yfir stefnuna og fórum síðan nákvæmlega yfir áætlanir okkar til næstu tíu ára. Þegar við vorum búin að teikna upp hvernig framleiðslan yrði, bæði hvað varðar verktöku og lyfjaþróun, þá keyrðum við þær áætlanir í gegnum framleiðslukerfið til þess að sjá hvort það væru einhverjir flöskuhálsar í framleiðslunni. Þetta var heilmikil vinna og í kjölfarið fórum við í ýtarlega greiningu á kostnaðarverði seldra vara. Allt var reiknað upp á nýtt til að leggja mat á samkeppnisfærnina.

Nú líður okkur mjög vel með planið. Við erum ekki að yfirselja framleiðslugetu verksmiðjunnar og vitum nákvæmlega hvað við getum framleitt og hvað það mun kosta. Við vitum einnig að verksmiðjan verður samkeppnisfær í verðum fyrir þau verkefni sem við höfum valið okkur.“

Athugasemdir