Þessa árs verður minnst fyrir endurkomu einstaklinga á hlutabréfamarkað og þá ekki síst í tengslum við útboð Icelandair Group í september, sem var að mínu mati atburður ársins á hlutabréfamarkaði. Útboðið, þar sem Icelandair aflaði 23 milljarða, var hið þriðja stærsta í sögu íslensks hlutabréfamarkaðar og í því gengu sjö þúsund nýir hluthafar til liðs við félagið. Þetta er merkileg niðurstaða í ljósi þess að fjöldi einstaklinga sem átti hlutabréf í öllum skráðum félögum í upphafi árs var einungis ríflega átta þúsund. Í lok árs hafði fjöldinn tvöfaldast, þökk sé, að stóru leyti, útboði Icelandair. Í útboðinu höfðaði Icelandair ekki einungis til fagfjárfesta heldur alls almennings og uppskar eftir því. Útboðið sýndi vel, á ögurstundu, styrk þess að vera skráð félag með aðgang að miklum fjölda fjölbreytilegra fjárfesta.

Sökum COVID var framan af ári gríðarleg óvissa og mikill bölmóður á hlutabréfamarkaði, hér sem annars staðar. Þegar verst lét síðla mars hafði Úrvalsvísitalan lækkað um fjórðung frá áramótum. Vaxtalækkanir Seðlabankans, efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, seigla margra fyrirtækja og jákvæð tíðindi af bóluefnum seint á árinu snéru dæminu við og Úrvalsvísitalan hefur nú hækkað um 20% á árinu.

Þessar óvenjulegu markaðsaðstæður höfðu vafalítið letjandi áhrif á nýskráningar og á endanum var ekkert nýtt félag skráð á árinu, sem voru vissulega vonbrigði. Þegar svartsýnin var sem mest og hlutabréfaverð sem lægst í vor kom ekki á óvart að félög væru í biðstöðu. En þegar markaðir tóku við sér á síðari hluta ársins er líklegt að félög hafi vanmetið tækifæri í skráningu á markað. Þessu til rökstuðnings má nefna að skráð félög öfluðu samtals um 29 milljarða á markaði í haust. Þá var bylgja nýskráninga eftir sumarið í hinum þremur kauphöllum Nasdaq á Norðurlöndunum, þar sem staðan á markaði var svipuð og hér. Þar voru 78 á félög skráð á árinu eða 15 fleiri en í fyrra.

Horfur eru á aukinni þátttöku bæði einstaklinga og erlendra fjárfesta á markaðnum sem styrkja myndi eftirspurn og verðmyndun

Mér virðist að fram undan séu skýr kaflaskil á íslenskum hlutabréfamarkaði. Ríkisstjórnin stefnir á að selja hlut í Íslandsbanka og skrá bankann í maí en slík skráning myndi verða mikill hvalreki fyrir markaðinn. Þá hefur leið smærri og millistórra félaga á markað verið greidd með lagabreytingu sem léttir á upplýsingagjöf félaga sem sækja sér innan við 8 milljónir evra í almennu útboði. Þetta dregur úr kostnaði og ætti að verða til hagsbóta fyrir hin fjölmörgu efnilegu vaxtarfyrirtæki í nýsköpun sem geta notið góðs af markaðnum til að knýja vöxt.

Sömuleiðis eru horfur á aukinni þátttöku bæði einstaklinga og erlendra fjárfesta á markaðnum sem styrkja myndi eftirspurn og verðmyndun. Taka íslenska markaðarins inn í vísitölur hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu MSCI sem tekur gildi í vor og nýleg nútímavæðing uppgjörskerfis Nasdaq verðbréfamiðstöðvar munu auka áhuga erlendra fjárfesta. Auk þess er líklegt að Seðlabankinn og löggjafinn muni liðka frekar fyrir aðkomu þeirra. Áhugi almennings á hlutabréfafjárfestingum fer vaxandi. Viðvarandi lágt vaxtastig og nýsamþykkt lög sem tvöfölduðu og útvíkkuðu frítekjumark vaxtatekna til söluhagnaðar og arðgreiðslna frá skráðum félögum munu vafalítið auka áhuga almennings enn frekar.

Höfundur er forstjóri Kauphallarinnar.