Endur­koma Boeing 737 MAX 8 vélanna í loftið gæti frestast enn frekar en á vef Wall Street Journal í dag er greint frá því að evrópsk flug­mála­yfir­völd þyki fram­leiðandinn og banda­rísk flug­mála­yfir­völd ekki hafa sýnt fram á öryggi upp­færslna með nægjan­legum hætti.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hafa for­svars­menn fyrir­tækisins búist við því að upp­færslum á stýri­kerfi vélanna geti verið lokið í þessum mánuði. Jafn­vel væri búist við því að vélarnar gætu verið komnar á loft á ný í byrjun fjórða árs­fjórðungs.

Í um­fjöllun Wall Street Journal kemur fram að á­greiningur evrópskra og banda­rískra flug­mála­yfir­valda snúi að upp­færslum á sjálf­stýri­búnaði vélanna en Boeing hefur í sam­ráði við þau banda­rísku bætt við tvö­földu tölvu­kerfi sem koma á í veg fyrir bilun í búnaðinum.

Full­yrt er að yfir­maður evrópskra flug­mála­yfir­valda, Pat­rick Ky, hafi komið á­hyggjum stofnunarinnar á fram­færi við banda­rísk flug­mála­yfir­völd. Kemur fram að Boeing og banda­rísk flug­mála­yfir­völd hafi lokið við prófanir á nýja tölvu­kerfinu. Þeim evrópsku hafi hins vegar ekki verið sýnt nýju upp­færslurnar og gæti af­staða þeirra breyst. Enn er verið að fara yfir breytingar þar.

Flug­vélar af þessari gerð hafa verið kyrr­settar frá því í mars á þessu ári eftir tvö mann­skæð flug­slys í Indónesíu og í Eþíópíu sem áttu sér stað með stuttu milli­bili. Slysin tvö hafa verið rakin til skynjara­­kerfis vélarinnar sem ýtti nefi vélanna niður í ó­­þökk ­flug­manna. Boeing hefur þurft að ráða hundruð tíma­bundinna starfs­manna á meðan búnaður vélanna er yfir­­­færður og hug­búnaður upp­­­færður.