„Vandinn er að það verður til svo takmarkaður einkasparnaður í hagkerfinu vegna þess að 20 prósent af launum fólks renna til lífeyrissjóðanna. Þegar svo er verða lífeyrissjóðirnir eini vörsluaðili nýs sparnaðar á landinu,“ var haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra og stærsta hluthafa Sýnar, í umfjöllun Markaðarins í gær um virkni hlutabréfamarkaðarins. Hann sagði að þjóðin væri ung og því væri eignatími lífeyrissjóða mældur í áratugum.

„Ef við hugsum dæmið til enda þá verðum við með kapítalískt kerfi án kapítalista þar sem embættismenn stýra fyrirtækjunum.“

„Það veldur því að þeir kaupa eignir og setja í skúffu. Það eru mjög fáir virkir fjárfestar að færa sig á milli félaga eftir því sem möguleikar eða forsendur breytast. Ef við hugsum dæmið til enda þá verðum við með kapítalískt kerfi án kapítalista þar sem embættismenn stýra fyrirtækjunum. Við þurfum fleiri hluthafa sem hætta sínu sjálfsaflafé en kerfið í dag er þvert á móti að stækka lífeyrissjóðina enn frekar,“ sagði Heiðar.

Hann sagði að tvö skilyrði fyrir aðhaldi í rekstri skráðra félaga væru annars vegar það að í stjórn veldist fólk sem eigi eitthvað undir gengi félagsins og hins vegar það að hluthafar gætu kosið með fótunum, þ.e.a.s. selt sinn hlut auðveldlega.

Er lítil virkni á markaðinum að raska verðmyndun hjá fyrirtækjum á borð við Sýn að þínu mati?

„Já, ég tel svo vera og það skapar ákveðna sjálfheldu. Hver hættir sér inn ef hann kemst ekki auðveldlega út? Þess vegna eru fyrirtækin með viðskiptavaktir sem bankarnir sjá um en umfang þeirra nemur aðeins nokkrum tugum milljóna króna. Það þýðir að ef einhver ætlar að láta virkilega til sína taka þarf hann að sæta færis. Þetta skapar dálítið spastískt viðskiptaumhverfi,“ sagði Heiðar og nefndi í því samhengi að nýlega hefði stór enskur sjóður selt sig niður í Sýn og innlendur einkafjárfestir bætt við sinn hlut á móti.

„Í stað þess að það séu jöfn og þétt viðskipti með bréf, eiga sér stað stór og óregluleg viðskipti þegar það eru gríðarlega ólíkar skoðanir á markaðinum,“ sagði Heiðar.

Spurður hvort afskráning fyrirtækja yrði fýsilegri kostur í þess konar umhverfi sagðist Heiðar telja það líklegt. Hlutabréfamarkaðinum hefði verið komið á fót til þess að almenningur ætti auðveldara með að fjárfesta í atvinnulífinu en ekki síður til þess að fyrirtæki ættu greiðari aðgang að fjármagni.

„Það hlýtur að vera að fjárfestar, sem fá ekki þann aðgang að fjármagni sem hlutabréfamarkaður á að veita þeim en eru hins vegar með alla upplýsingaskylduna, velti fyrir sér hvort að það sé þess virði að hafa fyrirtækin áfram skráð,“ sagði Heiðar. Þá sagði hann að lítil virkni væri stór fyrirstaða í vegi erlendrar fjárfestingar í íslenskum verðbréfum. Erlendir fjárfestar horfðu til þess að geta auðveldlega farið inn á markaðinn og út af honum.