Jafnréttis- og fjölbreytnifyrirtækið Empower hefur fengið 300 milljónir íslenskra króna í fjármögnun. Fjármögnunin kemur frá framtakssjóðunum Frumtaki og Tennin.

Empower er nýsköpunarfyrirtæki sem sinnir jafnréttis- og fjölbreytniráðgjöf en fyrirtækið mun nýta fjármögnunina í að þróa hugbúnaðarlausnina Empower Now.

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að markmiðið sé að koma nýsköpunarlausninni á alþjóðlegan markað.

„Við ákváðum snemma í ferlinu að við vildum koma okkar aðferðafræði á alþjóðlegan markað. Hugbúnaðurinn Empower Now gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að ná yfirsýn yfir stöðu jafnréttismála, setja sér mælanleg markmið og fræða starfsfólk í gegnum stafrænar leiðir þar sem áherslan er að styðja við uppbyggingu á jákvæðri fyrirtækjamenningu með jafnrétti og fjölbreytni að leiðarljósi.“

Þórey segir að fjármögnunin frá Frumtaki og Tennin hafi mikla þýðingu fyrir fyrirtækið.

„Við erum nú að leggja af stað í vegferð þar sem við erum að ráða inn fleira fólk til að þróa hugbúnaðinn. Við ætlum að hasla okkur völl á alþjóðlegum vettvangi og stefnum að því að setja hugbúnaðinn á alþjóðlegan markað á næsta ári.“