Flug­fé­lagið Emira­tes til­kynnti í dag að meiri­hluti far­þega­flugs yrði fellt niður frá og með 25. mars næst­komandi. Frakt­flugi verður á­fram haldið úti á­samt því sem flogið verður til valdra á­fanga­staða á meðan landa­mæri eru opin.

Um er að ræða ó­tíma­bærar að­gerðir til að draga úr efna­hags­legum á­hrifum CO­VID-19 far­aldursins á fé­lagið.

Laun lækkuð

Emira­tes er eitt stærsta flug­fé­lag í heimi og flýgur til yfir 150 landa. Í til­kynningu fé­lagsins kemur fram að að­gerðir yfir­valda, á borð við lokun landa­mæra og sótt­kví, hafi haft veru­lega á­hrif á starf­semi fé­lagsins sem hafi nú þegar orðið fyrir miklum tekju­missi.

Ekki verður gripið til upp­sagna sem stendur en laun nær allra starfs­manna verða lækkuð um 25 til 50 prósent næstu þrjá mánuði.

Af­lýsingum fjölgar

Fé­lagið bað alla við­skipta­vini sína inni­legrar af­sökunar á þeim ó­þægindum sem af­lýsingarnar kunni að valda og tók fram að reynt yrði að koma til móts við alla.

Þetta er ekki fyrsta flug­fé­lagið sem grípur til svo rót­tækra að­gerða en Austra­li­an Air­lines og Air Baltic hafa þegar hætt öllu far­þega­flugi. Önnur flug­fé­lög hafa af­lýst fjölda ferða og eru af­lýsingar síal­gengari eftir því sem líður á far­aldurinn.