Elon Musk, forstjóri Tesla og ríkasti maður heims, vill hætta við kaup sín á samfélagsmiðlinum Twitter. Twitter hafði samþykkt yfirtökutilboð Musks upp á 44 milljarða Bandaríkjadala í apríl síðastliðinn. Síðustu vikur hafa hins vegar verið uppi orðrómar um að samkomulagið væri í hættu, meðal annars vegna óánægju Musks með óvissu um fjölda falsaðra notendaaðganga á miðlinum.

„Hr. Musk er að slíta samrunasamkomulaginu vegna þess að Twitter er efnislega brotlegt við marga skilmála samkomulagsins, virðist hafa veitt rangar og misvísandi upplýsingar sem Musk reiddi sig á þegar hann gekkst við samrunasamningnum og er líklegt til að leiða til forsendubrests,“ skrifuðu lögfræðingar Musks til Vijayu Gadde, leiðtoga lögfræðiteymis Twitter.

Twitter upplýsti fyrr í þessari viku að fyrirtækið væri að loka minnst einni milljón vélmennaaðganga á hverjum degi. Í bréfi sínu til Twitter tóku lögfræðingar Musks fram að Twitter hefði ekki veitt upplýsingar um það hvernig gerð væri úttekt á ruslpóstum og fölskum notendanöfnum á samfélagsmiðlinum.

Til þess að geta sagt upp kaupsamningnum verður Musk að sýna fram á það að Twitter hafi brotið gegn skilmálum samkomulagsins. Ella á hann á hættu á að þurfa að greiða skaðabætur upp á heilan milljarð Bandaríkjadala. Twitter hefur gefið út að fyrirtækið hyggist knýja Musk til að standa við yfirtökutilboðið og að fyrirtækið væri visst um að það myndi hafa betur.