Elon Musk, eig­andi Twitter, virðist hikandi í þeirri á­kvörðun að stíga til hliðar sem for­stjóri miðilsins þrátt fyrir niður­stöður úr eigin skoðana­könnun sem sýndu að meiri­hluti not­enda vill sjá hann fara. Musk spurði á Twitter á sunnu­dag hvort hann ætti að stíga til hliðar sem for­stjóri Twitter.

Eig­andinn sagði að hann myndi virða niður­stöðurnar og enduðu 57,5 prósent not­enda á því að svara spurningu hans játandi. Musk lét ekki mikið í sér heyra eftir að niður­stöðurnar voru birtar en hann var þá á úr­slita­leik heims­meistara­mótsins í fót­bolta í Katar.

Þögnin var loksins rofin þegar hann svaraði á­bendingum nokkurra not­enda sem héldu því fram að fals­reikningar hefðu skekkt niður­stöður skoðana­könnunarinnar. Hann virtist sam­mála til­lögum nokkurra not­enda um að að­eins þeir sem væru á­skrif­endur með svo­kallað stað­fest blátt merki við nafn sitt ættu að fá að kjósa og þar með hafa á­hrif á stefnu fyrir­tækisins.

Þar sem Elon Musk er meiri­hluta­eig­andi sam­fé­lags­miðilsins getur enginn neytt hann til að stíga til hliðar, en ó­út­reiknan­leg hegðun hans undan­farnar vikur hefur leitt til þess að jafn­vel hans nánustu bak­hjarlar hafa slitið tengsl við hann.

Sama dag og könnunin var birt á­kvað eig­andinn einnig að banna alla hlekki sem beindu not­endum á aðra sam­fé­lags­miðla eins og Face¬book, Insta­gram, Mastodon og jafn­vel ó­þekktari miðla eins Nostr. Sú á­kvörðun var dregin til baka sam­dægurs og baðst Musk af­sökunar á ringul­reiðinni.

Elon Musk er þekktur fyrir að nota skoðana­kannanir sem leiðar­vísi fyrir stefnu­breytingar. Til að mynda seldi hann tíu prósent af hluta­bréfum sínum í Tesla og hleypti Donald Trump aftur inn á Twitter í sam­ræmi við niður­stöður úr könnunum sem hann birti. Ekki er vitað hver næstu skref eig­andans verða á miðlinum en Musk gaf til kynna í seinasta mánuði í sam­tali við dómara í Delaware-fylki að hann vildi draga úr þátt­töku sinni á Twitter.