Elon Musk, eigandi Twitter, virðist hikandi í þeirri ákvörðun að stíga til hliðar sem forstjóri miðilsins þrátt fyrir niðurstöður úr eigin skoðanakönnun sem sýndu að meirihluti notenda vill sjá hann fara. Musk spurði á Twitter á sunnudag hvort hann ætti að stíga til hliðar sem forstjóri Twitter.
Eigandinn sagði að hann myndi virða niðurstöðurnar og enduðu 57,5 prósent notenda á því að svara spurningu hans játandi. Musk lét ekki mikið í sér heyra eftir að niðurstöðurnar voru birtar en hann var þá á úrslitaleik heimsmeistaramótsins í fótbolta í Katar.
Þögnin var loksins rofin þegar hann svaraði ábendingum nokkurra notenda sem héldu því fram að falsreikningar hefðu skekkt niðurstöður skoðanakönnunarinnar. Hann virtist sammála tillögum nokkurra notenda um að aðeins þeir sem væru áskrifendur með svokallað staðfest blátt merki við nafn sitt ættu að fá að kjósa og þar með hafa áhrif á stefnu fyrirtækisins.
Þar sem Elon Musk er meirihlutaeigandi samfélagsmiðilsins getur enginn neytt hann til að stíga til hliðar, en óútreiknanleg hegðun hans undanfarnar vikur hefur leitt til þess að jafnvel hans nánustu bakhjarlar hafa slitið tengsl við hann.
Sama dag og könnunin var birt ákvað eigandinn einnig að banna alla hlekki sem beindu notendum á aðra samfélagsmiðla eins og Face¬book, Instagram, Mastodon og jafnvel óþekktari miðla eins Nostr. Sú ákvörðun var dregin til baka samdægurs og baðst Musk afsökunar á ringulreiðinni.
Elon Musk er þekktur fyrir að nota skoðanakannanir sem leiðarvísi fyrir stefnubreytingar. Til að mynda seldi hann tíu prósent af hlutabréfum sínum í Tesla og hleypti Donald Trump aftur inn á Twitter í samræmi við niðurstöður úr könnunum sem hann birti. Ekki er vitað hver næstu skref eigandans verða á miðlinum en Musk gaf til kynna í seinasta mánuði í samtali við dómara í Delaware-fylki að hann vildi draga úr þátttöku sinni á Twitter.