Kanadíska sprota­fyrir­tækið Geo­metric Ener­gy Cor­por­ation (GEC), sem fram­leiðir tækni­lausnir, ætlar sér að smíða gervi­hnött til að sýna aug­lýsingar í geimnum sem verður svo skotið á spor­baug um jörðu með hjálp SpaceX.

Samuel Reid, fram­kvæmda­stjóri og einn af stofn­endum GEC, greindi frá þessu í sam­tali við Business Insi­der.

Gervi­hnötturinn, sem fengið hefur nafnið Cu­beSat, mun verða með skjá á annarri hliðinni þar sem aug­lýs­endur geta keypt pláss fyrir skjá­aug­lýsingar. GEC stefnir á að skjóta gervi­hnettinum upp í geim með hjálp Falcon 9 geim­flaug SpaceX sem mun koma honum fyrir á spor­baug í kringum jörðina.

Þegar Cu­beSat verður kominn á spor­baug um jörðu mun sjálfu­prik utan á gervi­hnettinum taka upp skjáinn og senda upp­tökuna út á netinu þar sem fólk getur fylgst með henni í raun­tíma. GEC stefnir á að smíði Cu­beSat verði lokið snemma árs 2022.

Geta keypt aug­lýsingar fyrir raf­mynt

Aug­lýs­endur munu geta keypt pixla á skjánum fyrir aug­lýsingar sínar með raf­mynt á borð við et­hereum og dogecoin. Þeir munu svo geta stjórnað því hvar á skjánum aug­lýsingin mun birtast og hversu lengi.

„Ég er að reyna að af­reka eitt­hvað sem mun skapa að­gengi að geimnum á lýð­ræðis­legan hátt og opna fyrir dreif­stýrða þátt­töku. Vonandi mun fólk ekki eyða peningum sínum í eitt­hvað ó­við­eig­andi, móðgandi eða dóna­legt,“ segir Reid.

Hann segir að allir sem hafi á­huga muni geta keypt sér að­gang að skjánum hvort sem það verði fyrir­tæki, aug­lýs­endur eða lista­menn.

„Það gætu verið fyrir­tæki sem vilja sýna vöru­merki sitt… eða það gæti endað sem eitt­hvað per­sónu­legra og list­rænna. Kannski munu Coca-Cola og Pepsi slást um vöru­merki sín og reyna að endur­heimta hvort annað,“ segir Reid.

Reid vonast til þess að skjár Cu­beSat muni svipa til netaug­lýsinga­skilta á borð við Reddit Place og Satoshi's Place, þar sem not­endur geta keypt aug­lýsingar einn pixe­l í einu.

Ekki eru allir á eitt sáttir við þessi á­form GEC en Twitter notandinn Lauren L Wal­ker tísti til að mynda:

„Ef ég mun ein­hvern tíma horfa upp í nætur­himininn og sjá aug­lýsinga­skilti í geimnum þá gerist ég hryðju­verka­maður.“