Ellefu manns sóttu um starf framkvæmdastjóra skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands samkvæmt svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Á meðal umsækjenda eru Rannveig Júníusdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og nú lögfræðingur á skrifstofu bankastjóra, og einnig Guðjón Rúnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Aðrir umsækjendur eru: Barbara Inga Albertsdóttir framkvæmdastjóri, Brynhildur Georgsdóttir ráðgjafi, Eva Margrét Ævarsdóttir lögfræðingur, Gísli Rúnar Pálmason lögfræðingur, Guðmundur Thorlacius Ragnarsson lögfræðingur, Karl Óttar Pétursson lögfræðingur, Margrét Kjartansdóttir framkvæmdastjóri, Salvör Sigríður Jónsdóttir móttökuritari og Sigurður Guðmundsson lögfræðingur.

Þegar starfið var auglýst kom fram að gerð væri krafa um háskólapróf í lögfræði. Þá var meðal annars gerð krafa um að hafa góða þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu og meðferð stjórnsýslumála, þar á meðal viðurlagamála, og eins þekkingu á laga- og regluumhverfi Seðlabankans.