ELKO hefur á­kveðið eftir að hafa selt DVD diska allt frá árinu 1998 að hætta sölu þeirra. Diskarnir sem enn eru til á lager verða settir á rýmingar­sölu sem mun ljúka þegar síðasti diskurinn er seldur.

Alls hefur ELKO frá upp­hafi selt 1.985.000 DVD diska í verslunum sínum og munu við lok rýmingar­sölunnar hafa selt tvær milljónir þeirra.

„Þegar ELKO opnaði dyrnar fyrir fyrsta við­skipta­vininum árið 1998, voru DVD diskar eitt það fyrsta sem blasti við og hefur alla tíð síðan verið stór hluti af vöru­úr­vali verslunarinnar. En tímarnir breytast og í dag er hægt að nálgast allt þetta efni í gegnum hinar ýmsu streymis­veitur. Á­horf á barna­myndir, sem hafa verið stór hluti af sölunni síðustu ár, er sömu­leiðis að færast yfir í spjald­tölvur og streymis­veitur í sjón­varpi og því komið að því að hætta al­farið með þennan vöru­flokk og rýma fyrir nýjum vörum og nýjum tímum.“ segir Bragi Þór Antoníus­son, markaðs­stjóri ELKO.

Verð frá 95 krónum

Bragi segir að um sé að ræða stóra stund, sem sé þó vel tímabær.

„Það er búið að fjara undan þessu síðustu ár en það hefur samt sem áður ó­trú­lega mikið hangið inni. Þetta er farið að kosta okkur aðal­lega í plássi þannig verður gott að losa um það,“ segir Bragi.

Hann segir að verðin á diskunum á rýmingarsölunni verði frá 95 krónum og upp úr.

„Eitt­hvað er í heilum seríum sem er þá að­eins dýrara,“ segir Bragi.

Hann segir að þau vilji vera búin að rýma plássið fyrir lok sumars og því eigi allt að fara.

„Verðin munu lækka jafnt og þétt þangað til. Það er líka heil­mikill um­hverfis­vinkill í þessu og það verður gaman að hætta að selja allt þetta plast,“ segir Bragi.

Mikið og fjölbreytt úrval er af DVD diskum á rýmingarsölunni.
Mynd/Elko

Opna rafíþróttadeild í stað DVD deildarinnar

Plássið sem fæst með því að rýma DVD deildina verður svo nýtt í sér­staka raf­í­þrótta­deild. Bragi segir að raf­í­þróttir hafa vaxið gríðar­lega í vin­sældum síðustu árin, ekki síst með stofnun Raf­í­þrótta­sam­taka Ís­lands og stuðningi nokkurra í­þrótta­fé­laga á höfuð­borgar­svæðinu. Hann segir að ELKO ætli sér að taka þátt í þeirri þróun af fullum krafti og mun meðal annars bjóða upp á að­stöðu í versluninni til að koma og spila leiki á besta mögu­lega búnaði sem til er hverju sinni.

„Það verða tölvur og skjáir, stólar og borð og alls­kyns auka­hlutir. Svo ætlum við að reyna að gera gott betur og vera með treyjur og annan varning frá stærstu liðunum. Þar verður svæði til að prófa og koma saman og spila saman,“ segir Bragi.

Hann segir að það verði eitt­hvað í öllum verslunum en að stærsta raf­í­þrótta­svæðið verði í Lindunum í Kópa­vogi.