Slökkt var á stærsta ofni járnblendisverksmiðju Elkem á Grundartanga í þrjá mánuði í sumar vegna lágs afurðaverðs.

Viðskiptablaðið greinir frá og hefur Einari Þorsteinssyni, forstjóra Elkem á Íslandi, að verðin séu mjög lág og það hafi ekki borgað sig að framleiða.

„Við vorum kannski að einhverju leyti að reyna að hafa áhrif á markaðinn en við sjáum ekki alveg beint að það hafi virkað,“ segir Einar í samtali við Viðskiptablaði.

Framleiðslan er komin á fullt á ný en Elkem hefur lagt áherslu á framleiðslu á sérhæfðari afurðum sem eru jafnan stöðugari í verði.

Einar segir aðstæðurnar krefjast þess að fyrirtækið leiti allra leiða til að hagræða. „Við erum í hörkubaráttu, þannig er lífið núna.“