Elín Hirst hefur verið ráðin ritstjóri Fréttavaktarinnar hjá Torgi ehf. Fréttavaktin sendir út sjónvarpsfréttir alla virka daga í opinni dagskrá frá klukkan 18:30-19:00 á Hringbraut og á vefnum frettabladid.is.
„Ég er búin að starfa hér á Torgi, frá því síðasta haust og hef fengið að kynnast öllum innviðum hér, Fréttablaðinu, vefnum okkar frettabladid.is og Fréttavaktinni á Hringbraut.
Það er afskaplega spennandi verkefni að sjá þessa miðla vinna saman og styðja hvern annan til að auka þjónustuna við okkar viðskiptavini, enda er það framtíðin í fjölmiðlun. Samstarf mitt og Sigmundar Ernis Rúnarssonar aðalritstjóra hefur líka verið frábært eins og öll okkar ár saman og mér finnst afar gott að vinna undir hans stjórn.
Við finnum fyrir því að margir fylgjast með Fréttavaktinni á Hringbraut og við ætlum auðvitað að halda áfram að stækka okkar áhorfendahóp, " segir Elín Hirst nýráðin ritstjóri Fréttavaktarinnar.