Eðli verðbólgunnar hefur verið að breytast, að því er segir í Markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka. Nú gerir bankinn ráð fyrir því að nær allar undirvísitölur muni hækka í október en í júní báru tvær undirvísitölur þungann af verðhækkununum, þ.e. flugfargjöld og fasteignaverð.

„Þar til í apríl á þessu ári var ársverðbólga án húsnæðis neikvæð en hefur síðan farið hratt hækkandi sem bendir til þess að liðir sem höfðu verðhjöðnunaráhrif þar til fyrir stuttu eru farnir að ýta verðlagi upp á við. Á sama tíma hefur dregið úr hækkunum á fasteignaverði en þar sem fasteignaverðið er enn að hækka þá leiðir þessi þróun til hækkandi verðbólgu,“ segir í Markaðspunktum.

Greiningardeild Arion banka spáir 0,6 prósent hækkun á vísitölu neysluverðs í október sem er í takt við bráðabirgðaspá bankans frá því í lok september. Samkvæmt spánni hækkar tólf mánaða taktur verðbólgunnar í 2,9 prósent úr 2,7 prósentum frá síðasta mánuði.

„Veiking íslensku krónunnar er stór áhrifaþáttur í verðbólguspánni nú og verður það næstu mánuði í það minnsta nema að krónan styrkist snögglega. Einnig er líklegt að verðlag erlendis hafi áhrif á innflutta verðbólgu en sem dæmi þá stendur verðbólga í Bandaríkjunum í 2,7 prósent en fyrir ári nam verðbólgan 1,9 prósent. Verðbólgan þar í landi hefur farið hækkandi undanfarin ár eftir að hafa farið lægst í 0 prósent árið 2015. Þar sem hækkandi innflutningsverðlag og veiking krónu leiða til hækkandi verðlags á innfluttum vörum, þá versnar samkeppnisstaða þessara vara gagnvart innlendum vörum sem getur leitt til að innlend framleiðsla hækki verð, þar sem verðhjöðnunarþrýstingur erlendra vara er horfinn. Áhrifin geta því verið meiri en sem nemur veikingu krónu margfaldaðri með hlutfalli innfluttra vara í körfu Hagstofunnar,“ segir í greiningunni.