Tekjur Eldum rétt uxu um 53 prósent á milli ára og námu 1,1 milljarði króna árið 2020. Fyrirtækið hagnaðist 79 milljónir króna og arðsemi eiginfjár var 51 prósent. Eiginfjárhlutfallið var 63 prósent við lok árs 2020. Þetta kemur fram í nýjasta ársreikningi Eldum rétt.

Tilkynnt var um kaup Haga á Eldum rétt í dag. Kaupverðið kom ekki fram.

Framtakssjóðurinn Horn III átti helmings hlut í Eldum rétt. Stofnendurnir Kristófer Júlíus Leifsson og Valur Hermansson áttu hvor um sig fjórðungs hlut í fyrirtækinu.

Fram kom í frétt Viðskiptablaðsins að Basko, móðurfélag 10-11, hafi árið 2017 keypt helmings hlut í Eldum rétt af stofnendunum fyrir 420 milljónir króna. Þegar Skeljungur festi kaup á Basko árið 2019 hafi hluturinn í Eldum rétt ekki fylgt með. Horn III var áður stærsti eigandi Basko með um 88 prósent eignarhlut.