Bandaríska flugmálastofnunin FAA hefur sent viðvörun til þeirra flugmanna sem eru að fljúga til Orlando að lítið sé eftir af eldsneyti á flugvellinum. Flugfélög eru hvött til að hafa nóg af eldsneyti innanborðs til að tryggja að flugvélar þeirra verði ekki strandaglópar á flugvellinum.
Flugvöllurinn tilkynnti á Twitter á sunnudaginn að slæmt veður í Mexíkóflóa hafi haft áhrif á skipasendingu á eldsneyti til flugvallarins og að flugfélög ættu að auka varúðarráðstafanir.
Flugfélagið United Airlines hefur þegar lýst því yfir að þau muni bæta við millilendingum á nokkrum af áætlunarferðum þeirra til að bæta upp fyrir eldsneytistapið.
„Sökum skorts á eldsneyti í Orlando höfum við ákveðið að bæta við millilendingum hjá þeim flugvélum sem fljúga frá Orlando bæði á sunnudaginn og mánudaginn til að geta tekið eldsneyti. Á þessum tíma gerum við samt ráð fyrir því að uppfylla allar áætlunarferðir okkar án hindrunar,“ segir talsmaður flugfélagsins.