Fjárfestingafélagið Eldey, sem stýrt var af Íslandssjóðum og fjárfesti í ferðaþjónustu, tapaði 598 milljónum króna árið 2020 sem rekja má til virðisrýrnunar eignarhluta og lána. Árið áður nam tapið ríflega milljarði króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Eldey átti meðal annars í Norðursiglingu, Arcanum Fjallaleiðsögumönnum og Dive.is. Bókfært viðri eigna þess var 1,1 milljarður króna við árslok 2020. Verðmætasta eignin var Arcanum sem metin var á hálfan milljarð.

Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Eldeyjar og Kynnisferða í maí. Við það lauk Eldey hlutverki sínu. Eldey var í eigu lífeyrissjóða, einkafjárfesta og Íslandsbanka. Hluthafar voru 26. Frá árinu 2015 nam bókfært tap félagsins 2,1 milljarði króna.

„Árið 2020 byrjaði ágætlega og var rekstur félaganna í takti við væntingar eftir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir síðasta árs og bókanir til lengri tíma litu vel út. Í mars 2020 komu upp fordæmalausar aðstæður sem engan hafði órað fyrir, þegar gripið var til aðgerða til að sporna við útbreiðslu Covid-19 sem varð að heimsfaraldri.x,“ segir í ársreikningnum. Saga Travel var eina félagið í eignasafninu sem varð gjaldþrota í kjölfar heimsfaraldursins.

Viðræður við hluthafa um stækkun Eldeyjar höfðu staðið yfir í nokkurn tíma áður en heimsfaraldur Covid skall á. Þegar heimsfaraldurinn hófst breyttist forgangsröðunin þannig að í stað þess að auka við hlutafé til að hefja uppbyggingu og styrkja félögin til frekari sóknar var nú horft til þess hversu mikla fjármuni þyrfti til að koma félögunum í skjól miðað við 12-18 mánaða tekjuleysi. Hluthafar samþykktu að leggja Eldey til 500 milljónir króna og tóku flestir þátt í aukningunni. „Á árinu voru dregnar 221 milljón króna hlutafjárloforð vegna forgangshlutabréfa auk 257 milljón króna aukningar á hefðbundnu hlutafé úr fyrri hlutafjárloforðum,“ segir í ársreikningi.