Fjárfestingafélaginu Eldey verður slitið eftir samruna við Kynnisferðir. Með sameiningunni verða hluthafar Eldeyjar hluthafar í Kynnisferðum. Þetta segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar við Markaðinn.
Eldey hefur fjárfest í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og er meðal annars hluthafi í Norðursiglingu, Arcanum Fjallaleiðsögumönnum, Dive.is og Logakór.
Fjárfestingafélaginu er stýrt af dótturfélagi Íslandsbanka, Íslandssjóðum. Það er meðal annars í eigu sex lífeyrissjóða sem fara með um 70 prósenta hlut, Íslandsbanka sem á 9,9 prósenta hlut og fjárfestingafélagsins Íslenskar fjárfestingar sem á 3,3 prósenta hlut. Síðastnefnda félagið á meðal annars evrópska ferðaþjónustufyrirtækið Kilroy.
Eldey hefur fjárfest í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og er meðal annars hluthafi í Norðursiglingu, Arcanum Fjallaleiðsögumönnum, Dive.is og Logakór.
Kynnisferðir kaupa eignir Eldeyjar
Hrönn segir að samruni Eldeyjar við Kynnisferðir verði háttað með þeim hætti að Kynnisferðir kaupi hvert félag í eignasafni Eldeyjar að öllu leyti nema Sportköfunarskóli Íslands (Dive) þar sem keyptur er 51 prósenta hlutur og 20 prósenta hlutur í Íslenskum Heilsulindum.
Eldey átti fyrirtækin ekki að öllu leyti, að því er fram kemur á heimasíðu fjárfestingafélagsins. Það leiðir því af sér að aðrir hluthafar fyrirtækjanna hafi haft hug á samrunanum.
„Hluthafar Eldeyjar og þeir meðeigendur sem selja sína hluti fá kaupverðið greitt með hlutum í Kynnisferðum. Þetta þýðir einnig sólarlag Eldeyjar, þar sem hluthafar Eldeyjar eru nú hluthafar í Kynnisferðum. Eldey verður formlega slitið síðar meir í ferlinu,“ segir Hrönn og nefnir að stefnt sé að því að auka við hlutafé Eldeyjar.
Fram kom í tilkynningu í dag að markmið sameiningar Eldeyjar við Kynnisferðir sé að hagræða í rekstri ásamt því að styrkja sameiginlegt sölu- og markaðsstarf.
„Með þessari sameiningu náum við að búa til stórt og öflugt ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur verið markmið Eldeyjar frá upphafi. Sameinað félag kemur til með að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu og þjónustu fyrir alla þá sem vilja njóta náttúru Íslands,“ sagði Hrönn í tilkynningunni.