Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands taldi á fundi sínum fyrr í þessum mánuði ekki vera ástæðu til „umfangsmikillar [magnbundinnar] íhlutunar þar sem framboð á ríkisbréfum hefði ekki aukist til muna og verðmyndun og virkni markaða verið eðlileg. Nefndarmenn voru sammála um að þótt langtímaávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefði þokast upp að undanförnu væri ekki tilefni til kröftugri viðbragða að sinni.“

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem var birt í gær en þar segir einnig að allir nefndarmenn hafi verið þeirrar skoðunar að halda ætti meginvöxtum bankans óbreyttum í einu prósenti.

Frá því í lok ágúst hafa vextir á tíu ára ríkisskuldabréfum hækkað um liðlega 0,5 prósent – úr 2,6 prósentum í 3,1 prósent – og eru nú komnir á svipaðar slóðir og í mars þegar stýrivextir Seðlabankans voru 2,25 prósent. Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, sagði í samtali við Markaðinn í síðustu viku að skilaboðin sem markaðurinn væri líklega að senda væru „að Seðlabankinn þurfi að byrja að tala minna um magnbundna íhlutun [kaup á ríkisskuldabréfum] og þess í stað að framkvæma meira.“

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum fyrir allt að 150 milljarða í mars, en frá þeim tíma hefur hann hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir.

Í fundargerð peningastefnunefndarinnar, sem kom saman dagana 5. og 6. október, segir að það sé mat hennar að líklega væri raungengi krónunnar lægra en jafnvægisraungengið um þessar mundir. Því væri mikilvægt að Seðlabankinn héldi áfram inngripum á gjaldeyrismarkaði til að stemma stigu við veikingu á gengi krónunnar. Taldi nefndin að reglubundin sala bankans á gjaldeyri við opnun markaða, sem hófst um miðjan september, hafi aukið dýpt og bætt verðmyndun. „Taldi nefndin að þessar aðgerðir hefðu átt þátt í að gengi krónunnar hélst nokkuð stöðugt milli funda,“ segir í fundargerðinni.