Hrefna Sverrisdóttir, eigandi veitingastaðarins ROK í miðbæ Reykjavíkur, segir ekkert svigrúm til þess að lækka verð á veitingastöðum. 

Hrefna var einn af gestum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunnifyrr í dag þar sem hún svaraði meðal annars gagnrýni framkvæmdastjóra IKEA á verðlag á íslenskum veitingastöðum.

Þyrfti helmingi stærri veitingastað til að lækka ölverð

Aðspurð hvers vegna Hrefna reyndi einfaldlega ekki að lækka verðið á bjór á veitingastaðnum í fimm hundruð krónur sagði hún það einfaldlega ekki mögulegt, hún þyrfti þá að stækka veitingastaðinn um helming til að koma að fleiri kúnnum. „Ég þarf þá það mikið af gestum að ég þyrfti að tvöfallda staðinn, ég þyrfti þá að fá nýtt húsnæði og miðað við húsið mitt og miðað við fjölda starfsmanna og launastrúktúr og annað þá er bara ekkert svigrúm til þess.“

Sjá einnig: „Ná­kvæm­lega ekkert sem rétt­lætir þessa verð­lagningu“

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, hélt erindi á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands í liðinni viku þar sem hann gagnrýndi verðlög á veitingastöðum hér á landi harðlega. Sagði hann ekkert réttlæta „yfirgengilega“ verðlagningu á veitingastöðum landsins. Þá sagði hann að hér á landi sé að koma upp kynslóð sem þekki það vart að fara út að borða enda sé verðagningin út úr kortinu.  

Heilt yfir ekki há álagning

Hrefna sagði gagnrýni Þórarins óréttmæta og kvaðst ekki telja að veitingastaðir væru almennt með háa álagningu.

„Vissulega eru sumir staðir með háa álagningu en heilt yfir er það ekki svoleiðis og tölurnar sýna bara annað. Flest af þessum fyrirtækjum eru lítil fyrirtæki sem eru með mjög háan launakostnað, hár hráefniskostnaður og framleiðni lág,“ sagði Hrefna. 

Ikea frekar mötuneyti en veitingahús

Bendir hún á því samhengi að Þórarinn sé í einstakri samkeppnisstöðu hér á landi, IKEA sé hluti af stórri keðju og vörur þar framleiddar þar sem verð er mun lægra. Þá segir Hrefna Þórarinn vera í þeirri stöðu að vera í ódýru húsnæði og með lágan launakostnað. 

„Ikea er í rauninni mötuneyti, frekar heldur en veitingahús. Hann er með starfsfólk sem tekur á móti matnum og er ófaglært. Hann er ekki með neina þjónustu. Stærðin á staðnum, þetta eru 300 manns, það er enginn veitingastaður á landinu svona stór.“

Þá segir Hrefna vanta verðbil á íslenskum veitingamarkaði og segir það næstum jafndýrt að panta pítsu eða fara út að borða á fínum veitingastað 

Spyr hvort aukin framleiðsla sé svarið

Aðspurð um gagnrýni Þórarinns um að veitingamenn horfi of mikið á verðið fremur en að auka veltuna sagði Hrefna ekki vera svigrúm til að lækka verðið. 

„Þessi heimspeki hans Þórarins, að lækka verðið og kaupa meira og selja, selja, selja, er það sem við virkilega viljum? Bara selja fullt af dóti og enda uppi með fullt af drasli af því að það er svo ódýrt,“ spurði Hrefna og veltir því í kjölfarið fyrir sér hvort betra sé að versla færri vörur, framleiddar í nærumhverfinu og styrkja þannig minni og meðalstór fyrirtæki hér heima.