Sérfræðingar í samkeppnisrétti telja að frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, til breytinga á samkeppnislögum, sem ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku, sé almennt til þess fallið að stuðla að skilvirkara samkeppniseftirliti hér á landi. Samkeppniseftirlitið og atvinnulífið njóti góðs af því að tillögur frumvarpsins nái fram að ganga.

„Í engu er slakað á mikilvægustu efnisreglum samkeppnislaga og samkeppnislög á Íslandi, í þeim búningi sem frumvarpið gerir ráð fyrir, væru síður en svo veikari en samkeppnisreglur í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við,“ segir Heimir Örn Herbertsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti við Háskólann í Reykjavík.

Hallmundur Albertsson, einn af eigendum VÍK lögmannsstofu og sérfræðingur á sviði samkeppnisréttar, telur tillögur frumvarpsins fela í sér mikilvæg og nauðsynleg framfaraskref fyrir framkvæmd samkeppnisréttar á Íslandi.

„Sumar af þeim breytingum sem lagðar eru til,“ útskýrir hann, „eiga sér fyrirmynd í löggjöf sem samþykkt var í flestum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu á árinu 2004 og voru þá taldar valda straumhvörfum.

Þá var samkeppnisyfirvöldum í einstökum Evrópuríkjum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins legið á hálsi fyrir að mál væru allt of tímafrek og drægju úr skilvirkni innri markaðarins. Það er engin ástæða til annars en að ætla að það sama muni gerast á Íslandi.

Það eru of mörg dæmi um það að mál hafi verið til meðferðar í fjöldamörg ár. Slíkt dregur verulega úr áhrifum eftirlits. Það segir sig sjálft að niðurstaða rannsóknar um atburði sem eru fimm til sjö ára gamlir hefur takmarkaða þýðingu fyrir neytendur og samkeppni á þeim markaði sem málið varðar,“ nefnir Hallmundur.

Samkvæmt frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar verður skilyrði samkeppnislaga um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála þurfi að liggja fyrir áður en höfða megi mál til ógildingar á ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins fellt brott.

Ekki er hins vegar lagt til að heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði afnumin, eins og gert var ráð fyrir í drögum að frumvarpinu sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda síðasta haust.

Óheppilegt fyrirkomulag

Heimir Örn segir núverandi fyrirkomulag í kringum málskot gagnvart ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins óheppilegt. Fyrirtækjum sé skylt að bera þær ákvarðanir undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála en hafi enga vissu fyrir því að úrskurður hennar marki endalok máls. Tillaga frumvarpsins komi að vissu leyti til móts við þetta.

Heimir Örn Herbertsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti við Háskólann í Reykjavík.

„Mín afstaða er sú,“ segir Heimir Örn, „að fella hefði átt niður heimild Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurðum síns eigin æðra stjórnvalds til dómstóla.

Í þessum málaflokki er sumpart heppilegra að réttarframkvæmdin mótist í meðförum stjórnvalda sem geta þroskað með sér sérfræðiþekkingu og yfirsýn við úrlausn mála. Niðurstöður geti síðan sætt endurskoðun dómstóla, á grundvelli málskots fyrirtækja, með tilliti til þess hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt sem og um hvort niðurstöður rúmast innan ákvæða samkeppnislaga eins og þau verða eðlileg skýrð.

Ef Samkeppniseftirlitið er þeirrar skoðunar að úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé ekki treystandi þá er ástæða til að íhuga styrkingu á umgjörð áfrýjunarnefndarinnar. Einnig gæti Samkeppniseftirlitið beitt sér fyrir breytingum á samkeppnislögum til að „leiðrétta“ rangar niðurstöður áfrýjunarnefndar ef um slíkt væri að ræða að mati eftirlitsins.

Hafa ber einnig í huga að svigrúm dómstóla til að „móta réttinn“ á sviði samkeppnismála er takmarkað,“ útskýrir Heimir Örn.

Ef Samkeppniseftirlitið er þeirrar skoðunar að úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé ekki treystandi þá er ástæða til að íhuga styrkingu á umgjörð áfrýjunarnefndarinnar.

Að mati Hallmundar er sú leið sem valin er í frumvarpinu – að heimila fyrirtækjum að leita til dómstóla þó svo að úrskurður áfrýjunarnefndar liggi ekki fyrir – skynsamleg. Þá hafi fyrirtækin val um það hvaða leið skuli farin.

„Samsvarandi reglur eru í gildi í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun og hefur það gefist ágætlega. Í stærri málum standa oft líkur til þess að mál muni fara upp allt dómskerfið og þá er óþarfi að lengja leiðina með því að skikka aðila til að fara fyrir áfrýjunarnefnd og eiga mögulega þrjú dómstig eftir þegar niðurstaða þar liggur fyrir. Það má líka velta því fyrir sér hvort áfrýjunarnefndin sé orðin óþörf,“ nefnir Hallmundur.

Allar líkur séu á því að vægi nefndarinnar muni minnka verulega.

Hallmundur Albertsson, einn eigenda VÍK lögmannsstofu og sérfræðingur í samkeppnisrétti.

Einbeiti sér að brýnni málum

Aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru meðal annars þær að heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots verði felld brott, komið verði á sjálfsmati fyrirtækja á því hvort skilyrði séu uppfyllt fyrir undanþágum frá bannákvæðum laganna, veltumörk tilkynningaskyldra samruna verði hækkuð um fimmtíu prósent og málsmeðferð samrunamála bætt.

Heimir Örn segir brýnt að verkefni Samkeppniseftirlitsins séu miðuð við þau sem ætla megi að mestu máli skipti um ótruflað gangverk samkeppni á íslenskum mörkuðum.

„Þótt í hinum fullkomna heimi væri eftir atvikum gott að allt sem hugsanlega gæti haft einhver áhrif á samkeppni fengi skjóta og óskeikula skoðun eftirlitsstjórnvalds þá lifum við ekki í þeim heimi. Því þarf, við útfærslu samkeppnisreglna og málsmeðferðar samkeppnismála, að gera sér grein fyrir þeim takmörkunum sem þetta kerfi, eins og önnur kerfi, býr við. Frumvarpið er gott skref til móts við það sjónarmið,“ nefnir Heimir Örn.

Hallmundur segir að skilvirkni samkeppniseftirlits snúist ekki hvað síst um að sá mannauður sem sé til staðar til þess að sinna eftirlitinu sé nýttur á sem bestan hátt.

„Því tel ég að þær breytingar sem stuðla að því að Samkeppniseftirlitið einbeiti sér að þeim málum sem mestu máli skipta séu mikilvægastar,“ segir hann.