Mikilvægt er að ríkið hafi í huga við sölu á hlut í Íslandsbanka að selja hann ekki einungis til margra smárra hluthafa. „Það er reynslan af bankasölum víða að ef það koma aðeins margir litlir hluthafar inn sem ekki hafa sérþekkingu á bankarekstri þá fer bankinn í raun að stjórna sér sjálfur. Það er ekki góð þróun,“ segir Snorri Jakobsson, framkvæmdastjóri greiningafyrirtækisins Jakobsson Capital, í viðtali við ViðskiptaMoggann.

Snorri Jakobsson, framkvæmdastjóri greiningafyrirtækisins Jakobsson Capital.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra féllst á tillögu Bankasýslu ríkisins á föstudag um að selja hlut í Íslandsbanka. Ríkið á Íslandsbanka og Landsbankann að fullu. Eins á það Íbúðalánasjóð.

Valdimar Ármann, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance, sagði í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn laugardag að tryggja þurfi aðkomu kjölfestufjárfesta í bankanum hvort sem þeir koma erlendis frá eða séu hérlendis. Sá fjárfestir myndi taka að sér að leiða þær hagræðingaraðgerðir eða skipulagsbreytingar sem þurfi að gera á rekstri bankans til að hann uppfylli ávöxtunarmarkmið fjárfesta.

Langsótt

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hlutabréfa og blandaðra sjóða hjá Stefni, sagði við Fréttablaðið sama dag að það sé ekki útilokað að erlendir sjóðir sýni Íslandsbanka áhuga. Þó verði það að teljast langsótt um þessar mundir. Erlendir fjárfestar hafi verið að selja sig af innlendum verðbréfamarkaði að undanförnu. Hérlendis líkt og víða erlendis sé bönkum meinað að greiða út arð tímabundið.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hlutabréfa og blandaðra sjóða hjá Stefni.
Mynd/Aðsend

„Það geta vissulega líka legið tækifæri í offjármögnuðum bönkum og að öllum líkindum öflugri viðspyrnu hérlendis. Íslensku bankarnir séu almennt fjárhagslega sterkir í samanburði við evrópska banka. Flokkun Íslands í MSCI Frontier Markets vísitöluna gæti hvatt þá til dáða,“ segir hann.

Tímasetning sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka er góð, að mati viðmælanda Fréttablaðsins. Samhliða lægra vaxtastigi hefur eftirspurn eftir fjárfestingakostum aukist.

Valdimar Ármann, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance.

„Já, hví ekki?“ sagði Valdimar aðspurður hvort hægt verði að koma sölu á hlut í Íslandsbanka í gegnum þingið á kosningavetri. Hann benti á að mikill hallarekstur sé fram undan hjá ríkissjóði og hluti af fjármögnun hans þurfi að fara fram með eignasölu.

Ríkissjóður gæti minnkað vaxtabyrði sína

„Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og opinberra aðila hefur farið hækkandi undanfarna mánuði vegna áhyggna af miklu framboði á næsta ári sem markaðurinn hefur ekki verið reiðubúinn að taka við. Svona sala léttir þannig á skuldabréfamarkaðnum og í raun og veru gæti ríkissjóður minnkað vaxtabyrði sína af skuldabréfafjármögnun þar sem líklegt er að minni væntingar um útgáfu muni leiða til lægri ávöxtunarkröfu en ella. Þannig að þó að bankinn sé seldur á afslætti þá gæti það vel unnist upp með lægri fjármögnunarkostnaði á skuldahlið ríkissjóðs,“ sagði hann.