Við erum í miðri loftslagskreppu og ef við breytum ekki um kúrs þá verður ekki líft á jörðinni. Þetta sagði Johan Röckstrom á Janúarráðstefnu Festu sem haldin var í Hörpu í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Röckstrom er talinn einn áhrifamesti vísindamaður heims á sviði jarðvísinda. Hann sagði jafnframt að vísindin séu skýr: „Við erum að renna út á tíma, við þurfum að endurhanna kerfin sem við lifum eftir til afstýra neyðarástandi.“

Auk Rockström hélt Kate Raworth, hagfræðingur og höfundur Kleinuhringjahagfræðarinnar (e. Doughnut Economics), framsögu.

Stjórnendur og sérfræðingar á sviði sjálfbærni í íslensku atvinnulífi ræddu saman um áskoranir í tengslum við orkuskiptin á Íslandi, upplýsingagjöf og fjárfestingu í sjálfbærni.

Kate Raworth fjallaði um Kleinuhringjahagfræðilíkanið sem leitast eftir því að finna jafnvægi milli grunnþarfa mannkyns innan þolmarka jarðarinnar.

Hún sagði að það væri mikilvægt að umbreyta fjármálakerfinu þannig að kerfið sé að þjónusta lífvænleika hér á jörðinni. „Visindamaðurinn á ekki að þurfa að finna fjármagnið. Hann segir hvernig við getum breytt úreldum kerfum yfir í ný kerfi sem eru sjálfbær. Við fylgjum eftir línulegu hagkerfi, ROI (Return on Investment), sem er úrelt, við þurfum að fylgja hringrásarkerfi þar sem við nýtum allt aftur og aftur. Fjármagna þarf sjálfbær verkefni og fjármagn þarf að dreifast betur og víðar en ekki á fárra manna hendur. Allir helstu atvinnugeirar þurfa að verða kolefnishlutlausir. Til að mynda þarf landbúnaðargeirinn að binda kolefni í stað þess að losa gróðurhúsalofttegundir,“ sagði Raworth.


Stefna um orkuskiptin þarf að vera fjármögnuð


„Ísland er hluti af Norðurslóðum þar sem hitinn hlýnar tvisvar til fimm sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Það skiptir sköpum að fjármagn fylgi stefnu um orkuskipti,“ sagði Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. Hún talaði jafnframt um mikilvægi þess að ríki og einkaaðilar vinni saman að lausnum til að leysa vandann hraðar, „ljósið í myrkrinu eru tækninýjungar í orkuskiptum, hvernig við getum geymt betur orkuna og flutt hana á milli staða“ sagði hún.

Halla Hrund Logadóttir Orkumálastjóri.

Í pallborði um orkuskiptin kom fram að það sé mikilvægt að snúa baki við jarðefnaeldsneyti, hraða orkuskiptum og innleiða hringrásarhagkerfið. „Það er nauðsynlegt að hugsa til lengri tíma en út þennan ársfjórðung eða út kjörtímabilið. Það eru miklar breytingar framundan varðandi nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir skip og flugvélar og rafvæðingu hafna,“ sagði Aðalheiður Snæbjarnadóttir, fulltrúi Festu í Loftslagsráði.

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu og fundarstjóri á ráðstefnunni, sagði „ef erindi morgunsins vöktu okkur ekki hressileg upp þá veit ekki hvað þarf til. Ef einhver efast um að við séum komin á heljarþröm þá þarf sá hinn sami að endurskoða þá afstöðu. “