Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segist ekki gera ráð fyrir því að margir hluthafar Eimskips muni selja hlut sinn, í yfirtökutilboði sem berast mun í skipafélagið. Samherji Holding, sem er tengt samnefndri útgerð, mun leggja fram yfirtökutilboðið. Hann segir að ekki sé stefnt að því að skrá félagið úr Kauphöll.

Samherji Holding jók hlut sinn í Eimskip í 30,3 prósent í gær, úr 29,99 prósentum. Við það myndaðist yfirtökuskylda. Hún skapast þegar hluthafi eignast meira en 30 prósent í skráðu fyrirtæki á Aðallista Kauphallarinnar. Gengið í yfirtökutilboðinu verður 175 krónur á hlut.

Þorsteinn Már segir að stærstu hluthafar skipafélagsins hafi ekki verið spurðir um afstöðu til yfirtökutilboðsins. „Nei, í raun ekki. Það hefur sýnt sig að það er áhugi á félaginu. Við gerum ekki ráð fyrir að margir hluthafar muni nýta sér tilboðið,“ segir hann í samtali við Markaðinn. Lífeyrissjóðir fara saman með rúmlega helming hlutafjár.

Hann segir að ástæða yfirtökutilboðsins sé tvíþætt. Annars vegar hafi vakað fyrir stjórnendum Samherja Holding að „ljúka þessu“ er varði 30 prósenta mörkin. Ekki sé ólíklegt að hlutafé skipafélagsins verði lækkað innan tíðar, en Eimskip eigi umtalsvert af eigin bréfum, og við það myndi eignarhlutur Samherja Holding fara yfir 30 prósent. Fram kemur á hluthafalista að Eimskip er áttundi stærsti hluthafi skipafélagsins með 3,3 prósenta hlut.

Hins vegar hafi Samherji Holding farið yfir 30 prósenta mörkin í mars, rifjar Þorsteinn upp, og því gert yfirtökutilboð í Eimskip, en með það í huga að skipafélagið yrði áfram skráð í Kauphöll. Horfið var frá þeim áformum vegna óvissu sem COVID-19 leiddi af sér. „Við vildum klára vegferðina sem hófst í mars,“ segir Þorsteinn Már.

Við gerum ekki ráð fyrir að margir hluthafar muni nýta sér tilboðið.

Fram hefur komið í fréttum að hinn 10. mars hafi Samherji Holding aukið hlut sinn um þrjú prósent í Eimskip og við það fór eignarhluturinn yfir 30 prósent. Samherji Holding óskaði síðan eftir undanþágu frá tilboðsskyldu, vegna þeirrar óvissu sem COVID-19 hafði á efnahagslífið á þeim tíma. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti Samherja Holding slíka undanþágu hinn 31. mars síðastliðinn og seldi Samherji Holding hlutabréf í Eimskip samdægurs, þannig að hlutafjáreign félagsins í Eimskip fór niður fyrir 30 prósent.

Verðið í yfirtökutilboðinu nú miðast við gengið í gær, en ekki 10. mars. Frá þeim tíma og fram á þriðjudag hafa hlutabréf Eimskips hækkað um 24 prósent. Til viðbótar hækkuðu bréfin um níu prósent í gær. Það sem af er ári hafa hlutabréfin lækkað um tólf prósent.

Fram kemur í tilkynningu frá Samherja að kaupin á hlutabréfum í Eimskip endurspegli þá trú sem stjórnendur Samherja Holding hafi á rekstri skipafélagsins.