Fyrir rétt um 80 árum var alls óvíst um öryggi og sjálfstæði Breta. Eftir ófarirnar í Dunkirk sumarið 1940 og loft-árásir Þjóðverja í kjölfarið rétt hékk þjóðarsálin saman af gömlum vana. Nauðsynlegt var fyrir landsmenn á þessum viðkvæmu tímum að standa þétt saman og reyndist nýr leiðtogi þjóðarinnar, Winston Churchill, þar sannarlega betri en enginn, eins og frægt er orðið. Með háfleygum ræðum í útvarpi sannfærði hann landa sína um að barist yrði um holt og hæðir, en að lokum yrði hörmunganna minnst sem merkustu tíma heimsveldisins.

Það er aukaatriði að því hafi verið haldið fram að Churchill hafi ekki flutt þessar ræður ekki sjálfur heldur leikarinn Norman Shelley. Þær höfðu tilætluð áhrif, skilaboðin voru skýr og sannfærandi og það var það sem öllu máli skipti.

Í þeim skafli sem íslenskt efnahagslíf situr nú fast í, er mikilvægt að okkur sé sagt að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að lágmarka áfallið og þeim fullyrðingum sé hægt að treysta.

Á fundi Seðlabankans á dögunum sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans: „Fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að verðbólga fari hér úr böndunum eins og hefur gerst í fortíðinni, við munum passa upp á það.“

Auðvitað á Seðlabankinn að halda verðbólgu í skefjum, það er hlutverk hans. Það mikilvæga er þó ekki að hann hafi sagt þetta heldur hvernig hann sagði það. Svipaða sögu má segja af forsætis-, fjármála- og ferðamálaráðherra auk seðlabankastjóra. Þau hafa ítrekað sagt, með trúverðugum hætti, að nóg sé til í vopnabúrinu, núverandi aðgerðir séu ekki endanlegar og óhikað verði gefið í.

Það vorar á endanum og við losum okkur úr skaflinum, við vitum það. Þangað til, reynir á þau sem halda á þeim tækjum og tólum sem hér hefur verið safnað í verkfærakistuna á undanförnum árum til að bregðast við tímabundnu klandri sem þessu. Það er ánægjulegt og uppörvandi að sjá hversu vel hefur verið farið með það mikilvæga hlutverk til þessa.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka.