Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að stjórnvöld hafi ekki staðið við gefin loforð um lækkun tryggingargjalds. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld. Í þættinum var meðal annars rætt um komandi kjaraviðræður, sóttvarnaraðgerðir og rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

„Við höfum bent á tryggingagjaldið sem lækkaði tímabundið á síðasta ári og hækkaði svo aftur um áramótin,“ segir Ólafur og bætir við að tryggingagjaldið sé ekki komið niður í það sem það var fyrir hrun.

„Eftir hrun var það hækkað rosalega mikið og fyrirtækjum var lofað aftur og aftur að það yrði lækkað niður í það sem það var en það vantar enn heilt prósentustig upp á það.“

Hann bætir við að margir félagsmenn hans séu ósáttir við hækkun fasteignaskatta. „Margir af mínum félagsmönnum kvarta mikið yfir hækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Það eru að vísu sveitarfélögin sem innheimta þá skatta en það er ríkið sem setur lögin. Ég tel að það þurfi að eiga sér samtal atvinnulífs, ríkis og sveitarfélaga um að gera þá skattheimtu stöðugri og gegnsærri.“

Ólafur segir jafnframt að létta þurfi á reglubyrði fyrirtækja. „Hvað varðar reglubyrði á fyrirtækjum þá heyrir maður ýmis falleg orð um að létta eigi á henni í stjórnarsáttmálanum en því hefur verið lofað í fleiri stjórnarsáttmálum en lítið gerst í þeim efnum."

Aðspurður hvort hann sé bjartsýnn á að stjórnvöld ráðist í þessar aðgerðir segir hann að það sé nauðsynlegt að svo verði gert.

„Það er ekki síst nauðsynlegt til að vinna á móti neikvæðum áhrifum kórónuveirukreppunnar á atvinnulífið. Það þarf fleira að koma til meðal annars lækkanir á sköttum en það eru fyrirheit um slíkar lækkanir í stjórnarsáttmálanum. Þess er að vænta kannski seinna á kjörtímabilinu og sömuleiðis einföldun regluverks. Við höfum til dæmis lagt til að lagt verði samkeppnismat á alla löggjöf um atvinnulífið líkt og gert var í kringum byggingargeirann og ferðaþjónustuna. Mikilvægt er að halda þeirri vinnu áfram því það er vinna sem lofar býsna góðu.“