Ekki er heimilt samkvæmt lögum að upplýsa hvort stjórnarmenn og lykilstjórnendur Icelandair Group hyggist taka þátt í hlutafjárútboði félagsins sem hefst í dag. Þetta kemur fram í svari Icelandair Group við fyrirspurn Markaðarins.

„Í ljósi þess að lög og reglur gera ráð fyrir að birta þurfi slíkar upplýsingar á markaði, svo allir hafi aðgang að þeim samtímis, þá er ekki hægt að svara spurningum um viðskipti æðstu stjórnenda að svo stöddu. Þau viðskipti verða birt á markaði þegar úthlutun liggur fyrir,“ segir í svari félagsins. Hið sama gildir um stjórnarmenn.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, er eini stjórnarmaðurinn sem á hlut í félaginu. Samkvæmt ársreikningi þess fyrir árið 2019 átti Úlfar rúmlega 12 milljónir hluta, en hann keypti þá á einu bretti haustið 2018.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Ice­landair Group á tæpar 1,8 milljónir hluta og samanlagður eignarhlutur annarra lykilstjórnenda nemur tæplega 1,7 milljónum hluta.

Icelandair Group gerir ráð fyrir að selja nýja hluti á genginu 1 króna á hlut fyrir alls 20 milljarða. Komi til umframeftirspurnar, mun stjórn hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljörðum, þannig að stærð útboðsins yrði að hámarki 23 milljarðar króna.

Útgefið hlutafé Icelandair mun þynnast niður í um 19 til 21 prósent gangi útboðið eftir eins og áformað er, en ef nýir fjárfestar félagsins nýta sér þau áskriftarréttindi sem fylgja með bréfunum, sem hægt verður að gera í einu lagi eða skrefum til allt að tveggja ára, þynnist eignarhlutur hluthafa niður í allt að 16 prósent.