Krónan hefur ekki veikst óeðlilega mikið miðað við önnur lönd sem eiga jafn mikið eða meira undir ferðaþjónustunni en Ísland og búa við fljótandi gjaldmiðil. Óvíst er hvenær fullri framleiðslugetu verður náð og flæðið á gjaldeyrismarkaði verður til þess að setja áframhaldandi þrýsting á að krónan veikist.

Þetta skrifar Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í greiningu sem var send á valda viðskiptavini bankans á mánudag. Hún rifjar upp ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra í fjölmiðlum en hann hefur kallað ástandið í dag tímabundið og sagt að gengi krónunnar sé mun lægra en fær staðist við eðlilegt framleiðslustig. Sökum þessa hefur bankinn verið virkur á gjaldeyrismarkaði undanfarnar vikur og hafið reglulega gjaldeyrissölu.

Erna spyr hvort hægt sé að tala um eðlilegt framleiðslustig og of veika krónu í ljósi þess að tímarammi COVID-krísunnar er sífellt að lengjast. Hún segir að stutta svarið sé nei.

„Það er ekki augljóst að krónan sé orðin of veik, að minnsta kosti til skemmri tíma litið. Landið er enn þá dýr áfangastaður, þrátt fyrir allt, þó samkeppnishæfnin hafi batnað verulega,“ útskýrir Erna. „Þegar ferðaþjónustan tekur við sér á heimsvísu er hins vegar ljóst að mikil samkeppni verður um ferðamenn og þar mun veik króna styðja við viðspyrnuna.“

Þá bendir hún á að margir kraftar verki í áttina að frekari veikingu krónunnar. Í fyrsta lagi hafi erlendir fjárfestar leitast við að losa eignir á Íslandi. Á sama tíma hafi uppsöfnuð fjárfestingaþörf lífeyrissjóða aukist og auk þess sé halli á vöru- og þjónustuviðskiptum. Eini krafturinn sem verki í áttina að styrkingu sé Seðlabankinn sem telur krónuna of veika og hegðar sér samkvæmt því. Hann sé einn á kaupendahliðinni.

„Að mínu mati er ekki hægt að segja að krónan sé of veik eins og sakir standa, að minnsta kosti ekki til skemmri tíma litið. Vissulega er hún veik miðað við fulla framleiðslugetu en það er algjörlega óvíst hvenær henni verður náð að nýju. Þar af leiðandi er ég ekki sammála seðlabankastjóra þegar hann talar um skammtímasveiflu, eðlilegt framleiðslustig og of veika krónu.“