Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair segir í samtali við Fréttablaðið það hafa komið á óvart að afgerandi meirihluti félagsmanna FFÍ felldi samninginn.

Afgerandi meirihluti felldi samninginn

Félagsmenn FFÍ felldu nýjan kjarasamning í atkvæðagreiðslu í dag. 72,56 prósent félagsmanna tók afstöðu gegn samningnum.

Hann segir Icelandair ekki getað gefið meira eftir í samningaviðræðum.

„Þetta er ekki eitthvað sem við áttum von á. Báðir aðilar skrifuðu undir samninga í góðri trú eftir mikla vinnu og langar samningaviðræður. Við fórum inn í þessar viðræður til að tryggja samkeppnishæfni félagsins til framtíðar en á sama tíma standa vörð um ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna."

Hann segir að það hafi tekist með þessum samningum og þess vegna séu þetta mikil vonbrigði.

Þurfi að tryggja samkeppnishæfni félagsins

Nýr fundur hefur verið boðaður í deilunni hjá ríkissáttasemjara á föstudag. Bogi segir að félagið muni ekki ganga lengra í samningaviðræðum við FFÍ.

„Staðan er þannig að við getum því miður ekki gefið meira eftir. Eins og ég hef sagt áður þá þurfum við að tryggja samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma. Við erum að sjá flugfélög allt í kringum okkur sem við munum keppa við í framtíðinni gera breytingar á samningum við sínar starfsstéttir."

Bogi segir félagið hafa verið í slæmri samkeppnisstöðu hvað varðar þennan rekstrarlið fyrir þetta ástand og því sé þetta mjög erfið staða.

„Okkar markmið númer eitt, tvö og þrjú hefur verið að ná samningum við Flugfreyjufélag Íslands og það tókst. Við áttum ekki von á öðru en að þeir samningar yrðu samþykktir. Þannig það var okkar plan að ganga frá samningum við FFÍ, við vorum ekki byrjuð að skoða neitt annað eftir að samningar voru undirritaðir þann 25. júní."

Ætla að koma Icelandair í gegnum þetta

„Næstu skref liggja ekki alveg fyrir. Við erum að meta stöðuna eins og er en við ætlum að koma félaginu í gegnum þetta. Á sama tíma getum við ekki gengið lengra hvað þessa samninga varðar."