Þórður Gunnarsson
Miðvikudagur 13. janúar 2021
06.00 GMT

Eiginfjárgengi (e. price-to-book value) norrænna banka er í flestum tilfellum vel undir einum, að því er gögn frá Bloom­berg-gagnaveitunni sýna. Gagnasafnið tekur til tólf viðskiptabanka í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Bretlandseyjum. Eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka er bókfærður á eiginfjárvirðinu 0,8, en rætt hefur verið um að söluverð bankans í komandi útboði á fjórðungshlut í bankanum verði meðal annars miðað við hið bókfærða virði í ríkisreikningi.

Snorri Jakobsson, eigandi greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, segir að ríkissjóður mætti vel við una að selja Íslandsbanka á verði sem samsvarar eiginfjárgenginu 0,8. Ávöxtunarkrafa fjármálafyrirtækja bæði á Íslandi og erlendis hefur farið lækkandi á undanförnum árum, vegna hertra reglna um eiginfjárhlutfall og heimildir til arðgreiðslna. Erfiðara er að ná viðunandi arðsemi eftir því sem eiginfjárhlutfallið er hærra. „Eiginfjárgengið 0,8 væri alls ekki lágt verð, heldur þvert á móti. Eiginfjárgengi evrópskra fjármálafyrirtækja er almennt 0,5 til 1,0 um þessar mundir,“ segir Snorri.

Í kjölfar þrots íslenska bankakerfisins fyrir ríflega 12 árum síðan voru settar auknar eiginfjárkvaðir á íslensku bankana. Ásamt lögbundnum eiginfjárkröfum í samræmi við evrópskrar reglur, kveða íslensk lög á um svokallaðan eiginfjárauka. Í tilfelli Íslandsbanka er eiginfjáraukinn 7,35 prósent, sem færir eiginfjárkröfu bankans í rúmlega 17 prósent. Eiginfjárhlutfall Íslandsbanka var hins vegar vel yfir 20 prósentum við síðasta uppgjör.

Það sem meira máli skiptir er hins vegar vogunarhlutfall íslensku bankanna, en í minnisblaði sem Bankasýsla ríkisins sendi fjármála- og efnahagsráðherra í lok október, voru íslensku bankarnir bornir saman við evrópska banka, meðal annars í þeim efnum. Íslenskir bankar eru með hæsta vogunarhlutfall allra í Evrópu, sem skilar sér í lakari lánskjörum til viðskiptavina.

Einnig kom fram í greiningu Bankasýslunnar að kostnaður vegna útlánaáhættu (e. cost of risk) nemur 1,79 prósentum hjá bönkum á Íslandi, í samanburði við 0,86 prósent hjá bönkum í Evrópu á fyrri helmingi síðasta árs. Var kostnaður vegna útlánaáhættu því um tvöfalt hærri en hjá bönkum í Evrópu og langhæstur af Norðurlöndunum, en kostnaður vegna útlánaáhættu var næsthæstur í Danmörku, um 1,1 prósent.

Afleiðing alls þessa er að erfiðara er að ná viðunandi arðsemi eiginfjár. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 var arðsemi eiginfjár Íslandsbanka 2,1 prósent og 5,1 prósent á sama tímabili árið 2019. Það er nokkuð undir arðsemiskröfu Bankasýslu ríkisins til fjármálafyrirtækja í eigu ríkissjóðs, en það skilgreinist sem áhættulausir vextir að viðbættu 5 prósenta álagi. Markmið viðskiptabankanna þriggja um arðsemi eigin fjár er hins vegar 10 prósent, en greint hefur verið frá því að erfitt sé að ná þeirri arðsemi samhliða svo háum eiginfjárkröfum.

Þannig kom fram í viðtali Markaðarins við Stefán Pétursson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Arion banka í nóvember síðastliðnum, að nær ómögulegt væri að ávaxta eigið fé í takti við markmið undir svo þungri eiginfjárbindingu. Hátt eiginfjárhlutfall leiðir þannig af sér lægri ávöxtunarkröfu á eigið fé, sem leiðir svo aftur af sér lægra eiginfjárvirði en ella.


Það virðist gleymast í umræðunni að bankarekstur er mjög áhættusamur og ekki að því vísu gengið að fá milljarða í arðgreiðslur ár eftir ár.Áhættusamur rekstur


Friðrik Már Baldursson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, segir að nær ómögulegt sé að ákvarða hinn fullkomna tímapunkt til að selja fjármálafyrirtæki í eigu hins opinbera. Hann segir skiljanlegt að sporin hræði þegar kemur að sölu ríkissjóðs á Íslandsbanka.

„Það er hins vegar ekki gott að ríkissjóður fyrir hönd skattgreiðenda sé með um og yfir 370 milljarða bundna í rekstri fjármálafyrirtækja. Það virðist gleymast í umræðunni að bankarekstur er mjög áhættusamur og ekki að því vísu gengið að fá milljarða í arðgreiðslur ár eftir ár, enda getur gefið á bátinn á fjármálamörkuðum eins og flestir Íslendingar ættu að muna. Ég held að það yrði mjög æskilegt ef ríkissjóður losaði um eignarhlut sinn í nokkrum skrefum, en þá þarf líka að setja skýrar reglur um eignarhald bankanna, til dæmis þegar kemur að krosseignatengslum,“ segir hann.

Friðrik Már Baldursson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.

„En þetta er ekki auðveld staða. Auðvitað er hægt að halda því fram að söluverð á banka sé lágt ef það er undir bókfærðu eigin fé – það er að segja seljandinn fái ekki í sinn hlut upplausnarvirði eigna bankans. Hins vegar er krafan um arðsemi eiginfjár á banka með svo mikið eigið fé óumflýjanlega lægri en hún væri á banka með minna eigið fé,“ segir Friðrik Már.


Endurmati eigna lokið


Á árunum eftir endurreisn bankanna litaðist afkoma þeirra mjög af endurmati á lánasöfnum. Tugmilljarðahagnaður myndaðist vegna lána sem færð voru yfir í nýju bankana á afslætti og hækkuðu svo í verði eftir því sem dró úr vanskilum: „Endurskipulagningu lánasafnanna er lokið og því er varasamt að líta til hagnaðar síðastliðinna tíu ára sem vísbendingar um hvað koma skal,“ segir Snorri Jakobsson.

Snorri nefnir jafnframt að hætta sé á stöðnun í rekstri banka sem eru í eigu hins opinbera: „Vel hefur tekist að halda afskiptum stjórnmálamanna af rekstri bankanna í algjöru lágmarki. Hins vegar er hættan sú að slík fyrirtæki staðni. Miklar breytingar eru í farvatninu á fjármálamörkuðum og því mikilvægt að bankar hafi hluthafa með framtíðarsýn sér að baki og sem séu óhræddir til breytinga. En það er auðvitað svo að stjórnmálamenn vilja sjaldan selja banka þar sem mikil völd geta fylgt því að eiga þá.“

Athugasemdir