Íslandi er ekki fyrirmunað að leita til annarra bóluefnaframleiðenda sem hafa ekki samninga við Evrópusambandið. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, á óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Bergþór spurði hann um orð Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, úr fréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni um að Ísland hafi skuldbundið sig til að kaupa bóluefni samkvæmt samningum Evrópusambandsins. Því sé ekki hægt að kaupa bóluefni framhjá þeim samningum.

Vildi Bergþór vita hvort einhver vinna hefði átt sér stað við að afla bóluefnis utan við samningana við ESB og hvort það hafi verið samþykkt í ríkisstjórn. „Eru áætlanir uppi hjá ríkisstjórninni um að lagfæra þessa stöðu og losa okkur undan þessum takmörkunum, og þá hvernig?,“ spurði Bergþór.

Gríðarleg óvissa þegar umræðan hófst

Bjarni sagði nauðsynlegt að setja sig í spor þess tíma er umræðan hófst. Þá hafi verið gríðarleg óvissa um hvenær bóluefni kæmi.

„Í raun og veru stöndum við frammi fyrir spurningunni um það hvort það hefði hreinlega verið ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að fella sig ekki við það samkomulag sem þarna var undirliggjandi, að þetta væri dálítið allir fyrir einn og einn fyrir alla, og ef menn vildu freista gæfunnar einir og sér gagnvart hverjum og einum þeim framleiðanda sem Evrópusambandið var í samtali við, þá myndu þeir ekki geta notið góðs af heildarsamningi Evrópusambandsins við þá hina sömu. Það hefði verið mjög djörf ákvörðun,“ sagði Bjarni.

Hefði það getað leitt til þess að samningur hefði náðst við framleiðenda sem hefði ekki verið fyrstur með bóluefni á markað.

Margir að reyna að koma Íslendingum í tengsl við aðra framleiðendur

Varðandi aðkomu ríkisstjórnarinnar sagði Bjarni að samningarnir hefðu verið ræddi í ríkisstjórn, skilyrðin hafi verið rædd þegar þau komu í ljós smám saman.

„Ég hef sömuleiðis skilið það þannig að ríkisstjórninni og okkur Íslendingum sé samkvæmt þessum samningum ekki fyrirmunað að leita til annarra framleiðenda sem mögulega kynnu að vilja bjóða fram bóluefni en eru ekki hluti af þeim fyrirtækjum sem eru í samningi við Evrópusambandið,“ sagði Bjarni.

„Ég hef bæði fengið beint og óbeint upplýsingar um að margir séu að reyna að koma okkur Íslendingum í tengsl við slíka aðila og það sé til skoðunar.“