Ríkis­endur­skoðun hafnar að­dróttunum á­kveðinna fjöl­miðla síðustu daga um að annar­leg sjónar­mið hafi ráðið för við út­tektar­vinnu em­bættisins þegar þau unnu skýrslu sína um sölu ríkisins á hlut í Ís­lands­banka 22. mars. Stofnunin segir enn fremur að um engan mis­skilning hafi verið að ræða af þeirra hálfu í um­fjöllun þeirra um til­boða­bók sölu­ferlisins.

Í til­kynningu frá em­bættinu segir að við vinnslu og í um­sagnar­ferli skýrslu Ríkis­endur­skoðunar hafi upp­lýsingar og at­huga­semdir sem fram komu af hálfu Banka­sýslu ríkisins verið hafðar til hlið­sjónar og tekið til­lit til at­riða sem em­bættinu þótti eiga rétt á sér og vörðuðu efni skýrslunnar og af­mörkun hennar.

„Skýrslan stendur því ó­högguð þrátt fyrir þá greinar­gerð sem Banka­sýslan birti 16. nóvember sl. og þær at­huga­semdir sem stofnunin hefur kosið að gera að um­fjöllunar­efni eftir birtingu hennar,“ segir í yfir­lýsingu Ríkis­endur­skoðunar.

Þar segir enn fremur að á fundi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra með stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefnd Al­þingis í gær hafi komið fram að sam­skipti stofnunarinnar hafi verið fag­mann­leg og að það væri ekki til­efni til að draga hæfni þeirra eða færni í efa.

„Ríkis­endur­skoðun hafnar að­dróttunum á­kveðinna fjöl­miðla síðustu daga um að annar­leg sjónar­mið hafi ráðið för við út­tektar­vinnu em­bættisins. Full­yrt hefur verið m.a. að um­fjöllun Ríkis­endur­skoðunar um til­boða­bók sölu­ferlisins byggi á mis­skilningi em­bættisins. Það er rangt. Í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar kemur fram að svör Banka­sýslu ríkisins til bæði em­bættisins og Fjár­mála­eftir­lits Seðla­banka Ís­lands í maí sl. byggðu á um­ræddu Excel-skjali sem inni­hélt marga ann­marka en ekki upp­færðri og villu­lausri út­gáfu þess. Banka­sýslan áttaði sig ekki á þeirri stað­reynd fyrr en í um­sagnar­ferli út­tektarinnar í októ­ber sl. Gögn málsins sýna svo ekki verður um villst að Banka­sýslan var, líkt og kemur fram í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar, ekki að fullu með­vituð um raun­eftir­spurn fjár­festa þegar á­kvörðun um leið­beinandi loka­verð var tekin að kvöldi 22. mars sl. Ekki er um neinn mis­skilning af hálfu Ríkis­endur­skoðunar að ræða,“ segir að lokum.