Ákvörðun Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að hafna málaleitan Samtaka atvinnulífsins svo unnt sé að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja sýnir að ekki sé lengur hægt að treysta á að ASÍ sýni ábyrgð í þeim grafalvarlegu aðstæðum sem samfélagið glímur nú við sem heild. Þetta segir í tilkynningu Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem fordæma afstöðu ASÍ.

„Samtök ferðaþjónustunnar fordæma þessa afstöðu enda verður neitun ASÍ ekki skilin á annan hátt en að verkalýðshreyfingin skorist undan ábyrgð sinni og hyggist ekki leggjast á árarnar með stjórnvöldum og atvinnulífinu á neinn hátt í þeirri lífsbaráttu sem íslensk ferðaþjónusta og efnahagslíf í heild stendur frammi fyrir næstu mánuði og ár,“ segir í tilkynningu SAF.

Eftir óformlegar viðræður um skeið og formlegt erindi Samtaka atvinnulífsins til samninganefndar ASÍ hefur nú borist það svar að verkalýðshreyfingin ljái ekki máls á tímabundinni lækkun launakostnaðar, hvorki frestun launahækkana né tímabundinni lækkun mótframlags í lífeyrissjóði.

„Neitun ASÍ á sanngjarnri málaleitan SA sýnir að ekki er lengur hægt að treysta á að ASÍ sýni ábyrgð í þeim grafalvarlegu aðstæðum sem samfélagið glímir nú við sem heild, gerólíkt því sem áður var,“ segir í tilkynningunni.

„Óbilgjörn afstaða ASÍ sýnir þannig fullkomið tómlæti gagnvart hlutverki samtakanna sem ábyrgðaraðila á vinnumarkaði og mikilvægs samstarfsaðila stjórnvalda og atvinnurekenda á fordæmalausum tímum í Íslensku efnahagslífi.“

Samtök ferðaþjónustunnar telja ljóst að afstaða ASÍ muni leiða til verri fjárhagsstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þau glími nú við lamandi aðstæður, með fullkomnu tekjutapi framundan um margra mánaða skeið og gríðarlegum lausafjárskorti.

„Það er óskiljanlegt með öllu hvernig forysta ASÍ getur komist að þeirri niðurstöðu að tekjulaus fyrirtæki geti uppfyllt launahækkanir á tímum sem þessum,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Samtökin benda á að mjög stór hluti þeirra umsókna um 25 þúsund umsóknir um hlutaatvinnuleysisbætur sem borist höfðu vinnumálastofunun í gær voru frá ferðaþjónustufyrirtækjum og starfsfólki þeirra, sem sýnir svart á hvítu hve alvarleg staðan er í greininni.

Ákvörðun ASÍ vinni beinlínis gegn markmiðum aðgerða stjórnvalda um að styðja við atvinnulíf og að gera fyrirtækjum eins og kostur er kleift að halda ráðningarsambandi við starfsfólks.

„SAF telja því augljóst að afstaða ASÍ muni því miður koma niður á félagsmönnum sambandsins þar sem óhugsandi er að ferðaþjónustufyrirtæki geti nú uppfyllt launahækkanir nema með frekari niðurskurði á launakostnaði, m.a. með enn frekari uppsögnum.“