Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ekkert svigrúm sé til launahækkana í ferðaþjónustunni. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður í kvöld klukkan 19:00 á Hringbraut.

Í Fréttablaðinu í morgun var umfjöllun um lífskjarasamninginn þar sem fram kom að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar munu sækja launahækkanir á næsta ári í tengslum við hagvaxtaraukann. Aðspurður hvort svigrúm sé til launahækkana segir hann að svo sé ekki.

„Nei, það er ekkert svigrúm til launahækkana hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Það hlýtur að gefa auga leið eftir tekjuleysi í marga mánuði, næstum því tvö ár, þar sem skuldir hafa safnast upp hjá fyrirtækjunum og þau hafa átt í erfiðleikum með að halda lykilfólki í starfi,“ segir Jóhannes og bætir við að það sé engin trygging að næsta sumar verði stórkostlegt fyrir ferðaþjónustuna.

„Það er engin trygging fyrir því að næsta sumar verði stórkostlegt fyrir ferðaþjónustuna og ólíklegt að það nái að vinna upp öll vandamálin. Það mun alveg taka jafnvel upp í 5 ár að taka á þessum vanda og það er algjörlega ljóst að það er engin innistæða fyrir launahækkunum hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum.“

Hann bætir við að þó svo ekki sé unnt að hækka laun í ferðaþjónustunni megi skoða að bæta ýmsa aðra þætti. „Það er möguleiki að skoða, ef verkalýðsfélögin eru tilbúin til þess, ýmsar strúktúr breytingar til dæmis varðandi dagvinnu, yfirvinnu og vaktaálög. Ég tel að það væri atvinnulífinu til góða ef þessir þættir væru skoðaðir með skynsömum hætti.“