Íslenskir bændur og afurðastöðvar fengu úthlutað rétt tæplega helmingi innflutningskvóta fyrir kjöt samkvæmt tollasamningi Evrópusambandsins og Íslands, að því er fram kemur á vefsíðu Félags atvinnurekenda. Með öðrum orðum þá eru stærstu innflytjendur erlends kjöts til landsins þeir hinir sömu og krefjast þess að innflutningur verði lagður af með öllu. Erlent kjöt sé ekki af sömu gæðum og innlent og af því stafi sérstök smithætta. Sérstaklega ófrystu.

Varla er hægt að draga aðra ályktun en að tvískinnungurinn sé alger. Þarna afhjúpast sömuleiðis að þegar barist er gegn innflutningi á kjöti eru það ekki almannahagsmunir sem ráða, eins og látið er í skína, heldur hreinir og klárir viðskiptahagsmunir á einokunarmarkaði. Neytendur tapa svo auðvitað á því að endingu. Minna val og hærra verð.

Á tímum eins og þessum þar sem einangrunar- og þjóðernishyggju virðist sífellt vaxa ásmegin er mikilvægt að draga dæmi sem þessi fram í dagsljósið. Aðstæður þar sem keisarinn er svo augljóslega nakinn. Alþjóðahyggja og samstarf virðist nefnilega eiga sér mun færri sterka málsvara nú um stundir en einangrun og þjóðernisrembingur. Bretum hefur tekist að koma sér í dæmalausa klípu með því að segja sig frá Evrópusamstarfi, eða gera að minnsta kosti tilraun til þess. Í Bandaríkjunum náði popúlistinn Trump kjöri meðal annars með því að lofa verndartollum og að reistir yrðu veggir við landamæri.

Á Íslandi sjáum við þessa merki í andstöðu við þriðja orkupakkann. Nokkrir þekktir popúlistar sem augljóslega hafa lesið sér til um aðferðir Steve Bannon og Brexit-liða nota sárasaklausa tilskipun frá Evrópusambandinu sem átyllu í allt aðra og meiri vegferð. Þeir tvístra og sundra og skipta þjóðinni í fylkingar. Við sjáum í tilviki Trumps og Brexit hverjar afleiðingarnar geta orðið þegar stjórnmálaleiðtogar þurfa að fara að efna loforð sem gefin eru í bríaríi.

Vonandi munum við bera gæfu til að sjá í gegnum rykmökkinn. Stórfelldur kjötinnflutningur aðal andstæðinga innflutnings á kjöti er áminning um að opna húddið og skoða vélina þegar einhver reynir að selja þér notaðan bíl. Í þetta skiptið reynist engin vél vera í bílnum þegar að er gáð. Það á við í svo miklu fleiri tilvikum. Verum vakandi.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.