„Þó að allir vilji hafa lægri vexti þá er ekkert mjög jákvætt að lækka vexti vegna þess að raunvextir eru orðnir mjög lágir. Þeir hafa verið í kringum hálft prósent mjög lengi. Við viljum ekki fara með þá mikið nær núllinu heldur en það og alls ekki undir,“ sagði Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, á fundi í Seðlabankanum í morgun.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig og verða meginvextir bankans því 3,25 prósent. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig gerðu grein fyrir ákvörðun nefndarinnar á fundingum og stóðu fyrir svörum.

„Staða hagkerfisins bendir ekki til þess að það sé ástæða til þess að við þurfum að fara þangað,“ sagði Rannveig í kjölfar ummælanna um að peningastefnunefndin vildi ekki fara með raunvexti mikið nær núllinu.

„Við erum í fyrsta sinn síðan ég man að sjá fjármálastefnuna og peningastefnuna dansa vel saman. Það er vegna ákvarðana sem voru teknar um innspýtingu í tengslum við kjarasamningana þannig að við þurfum ekki að fara með vextina eins lágt og við hefðum þurft ef fjármálastefnan hefði ekki verið að dansa með okkur í þessu.“

Töluverðar lækkanir hafa verið á hlutabréfaverði í Kauphöllinni í kjölfar vaxtaákvörðunar. Hefur úrvalsvísitalan lækkað um 1,9 prósent það sem af er degi.