Viðskiptasaga tæknifyrirtækisins Controlant, sem einbeitir sér að dreifingartækni á milli landa og heimsálfa, meðal annars á lyfjum og lækningavörum, hefur verið ævintýri líkust frá því það var stofnað árið 2007. Hjá fyrirtækinu starfa nú á fimmta hundrað manns í fimm löndum.

Vöxturinn sést best á því að velta Controlant jókst úr 865 milljónum í 8,9 milljarða á einungis tveimur árum í kjölfar þess að fyrirtækið landaði tímamótasamningum, meðal annars við lyfjarisann Pfizer, um vöktun og dreifingu bóluefna.

En nú stefnir Controlant á enn frekari landvinninga og hefur tilkynnt að farið verði hlutafjárútboð á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Því er ætlað að standa undir frekari vexti og nauðsynlegri fjárfestingu í mikilvægri vöruþróun sem sé fram undan.

Við viljum grípa þau tækifæri sem við sjáum að eru að myndast fyrir framan okkur.

Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, segir nauðsynlegt að stíga þetta skref á þessum tímapunkti.

„Við viljum grípa þau tækifæri sem við sjáum að eru að myndast fyrir framan okkur. Við erum komin í samstarf við okkar stærstu viðskiptavini og erum að teikna upp hvernig við ætlum að færa þessa tækni, sem þegar er búin að sanna sig, á næsta stig. Vakta lyf og minnka sóun í allri keðjunni frá framleiðslu og alla leið að sjúklingum.“

Verði það að veruleika segir Guðmundur í raun engin takmörk fyrir því hvað Cotrolant geti vaxið mikið á næstu misserum.

„Megnið af fjárfestingarþörf fyrirtækisins er í þróun. Til að víkka framboðið og stækka hugbúnaðinn. Við teljum okkur vera leiðandi í þessari rauntímavöktun lyfja í heiminum og ætlum okkur að vera það áfram. Byggja svo ofan á það sem þegar hefur áunnist.“

Guðmundur segir að þótt hlutafjárútboð fyrirtækisins sé í burðarliðnum þessar vikurnar sé ekki alveg búið að fastsetja nákvæmar tölur í því sambandi.

En hver á hann von á að viðbrögð fjárfesta verði?

„Ég á ekki von á öðru en að þessu verði vel tekið. Auðvitað þurfa allir að hafa trú á verkefninu og uppbyggingunni sem er framundan. En sagan er sannarlega með okkur í liði í þeim efnum,“ segir Guðmundur.

Hann segist líka trúa því að fjárfestar átti sig á hve mikill ávinningur sé af því að öflug fyrirtæki sem byggi á hugviti nái fótfestu á Íslandi. Í því felist gríðarleg verðmæti. Ekki bara fyrir fjárfesta heldur íslenskt samfélag í heild sinni. Hann segist alveg geta viðurkennt að Controlant setji markið hátt.

Við erum að færa okkur inn á markað sem er af allt annarri stærðargráðu en sá sem við erum á í dag.

„Það eru í raun engin takmörk fyrir því hvað Controlant getur vaxið mikið á næstu misserum. Ef allt gengur upp. Vöxturinn á þessu ári verður hóflegri en árin á undan en við nýttum líka mánuðina eftir heimsfaraldur vel og lögðum áherslu á að skipuleggja næstu skref af kostgæfni. Eftir þennan ævintýralega en erilsama tíma í sögu fyrirtækisins.

En svo verði tíminn að leiða í ljós hvað gerist í framhaldinu og hversu hratt næstu skref verði tekin," að sögn Guðmundar.

„Við vitum bara að möguleikarnir eru alveg svakalegir. Við erum að færa okkur inn á markað sem er af allt annarri stærðargráðu en sá sem við erum á í dag. Færa þessa tækni sem Controlant byggir á, alla leið að heilsugæslustöðvum og heim til sjúklinga um allan heim. Það er risastórt skref en líka mjög spennandi.

En við tökum bara eitt skref í einu í þessu og vöndum til verka. Það er það sem mestu skiptir,“ segir Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant.