Meiri hækkanir á sérbýli en fjölbýli

Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 3,1 prósent milli febrúar og mars. Fjölbýli hækkaði um 2,8 prósent og sérbýli um 3,9 prósent. Þessi hækkun verður að teljast mjög mikil, eða sú mesta síðan í mars í fyrra, og hafa hækkanir stigmagnast það sem af er þessu ári.

12 mánaða hækkun íbúðaverðs lækkar ögn þrátt fyrir þessa miklu hækkun milli mánaða og mælist nú 22,2 prósent samanborið við 22,5 prósent í febrúar. Minni hækkun á 12 mánaða grundvelli skýrist af því að hækkunin var einnig mjög mikil milli mánaða fyrir ári síðan. 12 mánaða hækkun fjölbýlis er óbreytt milli mánaða í 21,4 prósent á meðan 12 mánaða hækkun sérbýlis lækkar og mælist 25,6 prósent, sem er engu að síður mjög mikið í sögulegu samhengi.

Ýtir undir aukna verðbólgu

Í síðustu viku gaf Hagfræðideild Landsbankans út spá um þróun verðbólgu til næstu mánaða þar sem gert var ráð fyrir að drifkraftur hennar verði að miklu leyti hækkun húsnæðisverðs. Nýjasta mæling Þjóðskrár um íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu rennir stoðum undir þá spá þar sem hækkunin er býsna mikil. Bankinn gerir þó ráð fyrir að innan tíðar muni hækkanir íbúðaverðs verða hófstilltari, bæði vegna hækkunar stýrivaxta og þar með minni eftirspurnar en einnig vegna aukins framboðs. Það mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar.

Íbúðaverð hækkar hraðar en laun og annað verðlag

Á síðustu 12 mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 16,8 prósent umfram annað verðlag og 14,2 prósent umfram laun (nýjustu tölur eru frá því í febrúar). Þrátt fyrir viðlíka hækkanir á íbúðaverði og sáust hér á árunum 2016-2017 hefur hækkunin umfram laun og annað verðlag ekki náð sömu hæðum og sást á þeim tíma.

Þetta gefur, að mati hagfræðinga Landsbankans, til kynna að meiri innistæða hafi verið fyrir verðhækkunum nú, samanborið við síðasta tímabil mikilla verðhækkana. Lágir vextir á sama tíma og neyslumöguleikar voru takmarkaðir vegna faraldursins hafi aukið mjög á möguleika og áhuga margra á að kaupa fasteignir sem hafi ýtt undir þær verðhækkanir sem nú sjást.

Staða fyrstu kaupenda virðist enn þá sterk

Það kemur á óvart að sjá stöðu fyrstu kaupenda mælast jafn sterka og raun ber vitni á tímum þar sem íbúðaverð hækkar hratt. Á fyrsta ársfjórðungi þess árs voru 31 prósent allra kaupenda á höfuðborgarsvæðinu að kaupa sína fyrstu fasteign, ýmist einir eða með öðrum. Fjöldinn mælist þó minni en á fyrri fjórðungum, eða 649 talsins, sem skýrist af færri kaupsamningum almennt, en hægt hefur á íbúðasölu síðustu mánuði eftir að hámarki var náð fyrir um ári. Það er þó von á auknu framboði á höfuðborgarsvæðinu næstu misseri sem og víðar, þar sem íbúðum í byggingu hefur fjölgað um alls 21 prósent frá því í haust samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins. Það má því gera ráð fyrir að framboð íbúða til sölu aukist á komandi misserum. Hvort áhuginn á kaupum mælist jafn mikill fer eftir ýmsu, meðal annars þróun á vöxtum og kaupmætti launa.