Penninn Ey­munds­son býður nú upp á fimm­tíu PlaySta­tion 5 leikja­tölvur til sölu, á 154.900 krónur stykkið. Verðið er tæp­lega 100 prósent hærra en hjá sam­keppnis­aðilum, þar sem vélin er boðin til sölu á 79.990 krónur. Fyrir­sjáan­legur skortur er á vélum næstu mánuði að sögn umboðsaðila.

Salan og verð­lagningin hefur vakið mikla at­hygli. Þó nokkrar um­ræður hafa skapast um málið í Face­book hópnum PlaySta­tion á Ís­landi en gífur­legur skortur hefur verið á þessum vélum hér á landi. „Ég held að þetta sé ljótt 1.apríl gabb,“ skrifar einn net­verja.

Ekki hefur náðst í Þórunni Ingu Sigurðar­dóttur, vöru­stjóra Pennans vegna málsins þrátt fyrir í­trekaðar til­raunir. Net­verjar leiða að því líkum að fram­boð og eftir­spurn ráði verðinu.

Ólafur Þór Jóels­son, fram­kvæmda­stjóri Senu, sem er um­boðs­aðili PlaySta­tion á Ís­landi, segir í svari við skrif­legri fyrir­spurn Frétta­blaðsins að um­ræddar vélar Pennans hafi ekki verið fengnar þaðan. Hann tekur fram að Sena hafi engin á­hrif á út­sölu­verð á PlaySta­tion 5 vélum né á öðrum vörum sem dreift er af Senu.

„Við getum stað­fest að þessar vélar voru ekki keyptar í gegnum okkur. Eitt stærsta vanda­málið síðan PlaySta­tion 5 kom út eru svo­kallaðir „scal­pers“ sem kaupa upp lagera og selja svo dýrar á­fram og nýta sér þannig á­standið til að hagnast, við erum al­gjör­lega á móti slíku, enda höfum við allt frá út­gáfu PlaySta­tion 1 tölvunnar gert okkar besta í að upp­lifun PlaySta­tion notanda á Ís­landi sé sem best, hvort heldur það sé varðandi þjónustu, verð, úr­val og fleira.“

Þá segir Ólafur að það eina sem Sena geti gert sé að bjóða upp á góða þjónustu og sam­keppnis­hæf verð til smá­sölu­aðila til að við­halda traustum og góðum við­skipta­sam­böndum. Fjöldi fólks býður enn PS5 véla sinna sem það keypti í að­draganda jóla.

„Varðandi al­mennt á­stand á PS5 vélunum, þá er enn­þá skortur og verður hann fyrir­sjáan­legur næstu mánuði. Við munum þó fá vélar á næstu vikum og munum koma þeim út á markaðinn eins fljótt og auðið er.“