Penninn Eymundsson býður nú upp á fimmtíu PlayStation 5 leikjatölvur til sölu, á 154.900 krónur stykkið. Verðið er tæplega 100 prósent hærra en hjá samkeppnisaðilum, þar sem vélin er boðin til sölu á 79.990 krónur. Fyrirsjáanlegur skortur er á vélum næstu mánuði að sögn umboðsaðila.
Salan og verðlagningin hefur vakið mikla athygli. Þó nokkrar umræður hafa skapast um málið í Facebook hópnum PlayStation á Íslandi en gífurlegur skortur hefur verið á þessum vélum hér á landi. „Ég held að þetta sé ljótt 1.apríl gabb,“ skrifar einn netverja.
Ekki hefur náðst í Þórunni Ingu Sigurðardóttur, vörustjóra Pennans vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Netverjar leiða að því líkum að framboð og eftirspurn ráði verðinu.
Ólafur Þór Jóelsson, framkvæmdastjóri Senu, sem er umboðsaðili PlayStation á Íslandi, segir í svari við skriflegri fyrirspurn Fréttablaðsins að umræddar vélar Pennans hafi ekki verið fengnar þaðan. Hann tekur fram að Sena hafi engin áhrif á útsöluverð á PlayStation 5 vélum né á öðrum vörum sem dreift er af Senu.
„Við getum staðfest að þessar vélar voru ekki keyptar í gegnum okkur. Eitt stærsta vandamálið síðan PlayStation 5 kom út eru svokallaðir „scalpers“ sem kaupa upp lagera og selja svo dýrar áfram og nýta sér þannig ástandið til að hagnast, við erum algjörlega á móti slíku, enda höfum við allt frá útgáfu PlayStation 1 tölvunnar gert okkar besta í að upplifun PlayStation notanda á Íslandi sé sem best, hvort heldur það sé varðandi þjónustu, verð, úrval og fleira.“
Þá segir Ólafur að það eina sem Sena geti gert sé að bjóða upp á góða þjónustu og samkeppnishæf verð til smásöluaðila til að viðhalda traustum og góðum viðskiptasamböndum. Fjöldi fólks býður enn PS5 véla sinna sem það keypti í aðdraganda jóla.
„Varðandi almennt ástand á PS5 vélunum, þá er ennþá skortur og verður hann fyrirsjáanlegur næstu mánuði. Við munum þó fá vélar á næstu vikum og munum koma þeim út á markaðinn eins fljótt og auðið er.“